Sjá líffærasölu sem einu lausnina

Bushra Bibi er enn sárkvalin en hún seldi úr sér annað nýrað fyrir tólf árum. Fjölskyldan er fátæk og pabbi hennar hafði ekki ráð á læknismeðferð og eins þurfti að greiða lán. Eina sýnilega lausnin var að selja nýrað fyrir 110 þúsund rúpíur, rúmar 105 þúsund krónur. 

Eiginmaður hennar stóð í sömu sporum varðandi föður sinn og hann seldi einnig úr sér nýra. Þau glíma bæði við vanheilsu í kjölfarið og berjast í bökkum við að framfleyta sér og fimm börnum sínum. Nýru ganga kaupum og sölum í Pakistan og þar sem þau eru ódýr nær eftirspurnin langt út fyrir landsteinana.

Fyrr á árinu réðst lögregla inn á sjúkrahús í Lahore þar sem læknar voru í miðjum klíðum við að taka nýra úr manni og koma því fyrir í sjúklingi frá Óman. Læknarnir fengu að ljúka við aðgerðina en voru handteknir að því loknu ásamt aðstoðarfólki og manninum frá Óman sem hafði keypt nýrað með ólöglegum hætti.

Bæði yfirvöld og heilbrigðisstarfsfólk kvarta yfir því hversu erfitt er að koma í veg fyrir slík ólögleg viðskipti með líffæri. Enda hafi spilltir stjórnmálamenn lítinn áhuga á að stöðva jafnarðbær viðskipti og raun ber vitni.

Líffæragjöf er lögleg í Pakistan svo lengi sem líffæragjafinn gerir það af fúsum og frjálsum vilja án þess að fá greitt fyrir það eða vera þvingaður til þess að gefa úr sér líffæri. Aftur á móti vilja fáir gefa úr sér líffærin í Pakistan og því er kominn markaður fyrir glæpamenn að nýta sér fátækt fólks og kaupa úr því líffærin.

Fréttamaður AFP segir að það hafi ekki tekið langan tíma að komast í samband við umboðsmann sem var reiðubúinn til þess að finna líffæragjafa fyrir hann og fá samþykki frá sjúkrahúsi um að framkvæma aðgerðina. Allt þetta myndi kosta hann 23 þúsund Bandaríkjadali, sem svarar til 2,3 milljóna íslenskra króna.

Yfirvöld segja að ef líffæragjafinn segist hafa gefið líffærið af fúsum og frjálsum vilja geti þau ekkert gert. Vonir standa til þess að aðgerðin í Lahore í gær, þar sem 16 voru handteknir, sýni og sanni fyrir umheiminum að Pakistan er ekki lengur höfuðstaður ólöglegra viðskipta með nýru.

Mumtaz Ahmed, sem stýrir nýrnadeild Benazir Bhutto-ríkisspítalans í Rawalpindi, segir að þeir sem hagnist mest á líffæraviðskiptum séu forréttindahópar og þeir ríkustu í landinu. Þess vegna vilji þingmenn ekki gera slík viðskipti saknæm enda hagnast þeir oft persónulega. 

Mikil spurn er eftir líffærum sem veldur því að fátækt fólk neyðist til þess að selja úr sér líffærin til þess að framfleyta fjölskyldum sínum líkt og Bushra Bibi. Verkafólk þarf að fá lán hjá vinnuveitanda til þess að geta keypt sér læknisþjónustu og þegar kemur að skuldadögum virðist líffærasala vera eina leiðin út úr skuldunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert