Hóta fyrrverandi forseta Suður-Kóreu lífláti

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Un.
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Un. AFP

Norður-Kórea hótaði því í dag að beita dauðarefsingu gegn fyrrverandi forseta Suður-Kóreu, Park Geun-Hye vegna gruns um að ætlunin hafi verið að ráða leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-Un, af dögum.

Samkvæmt frétt norðurkór­eska miðils­ins Kor­e­an Central News Agency lagði Park fram áætlun um hvernig ætti að útrýma leiðtoga Norður-Kóreu. 

„Við lýsum því yfir að við munum beita dauðarefsingu gegn svikaranum Park Geun Hye,“ kom fram í yfirlýsingu frá saksóknurum og öryggisráðuneyti Norður-Kóreu. Þar kom einnig fram að Lee Byung-Ho, fyrrverandi yfirmanns suðurkór­esku leyniþjónustunnar, biðu svipuð örlög.

Þau „geta aldrei beðist vægðar þó að þau myndu mæta dauðdaga hunds hvenær sem er, hvar sem er og hvernig sem er frá og með þessari stundu,“ kom enn fremur fram í yfirlýsingu Norður-Kóreumanna.

Áður höfðu stjórnvöld í Norður-Kóreu krafist framsals yfirmanns leyniþjón­ustu Suður-Kór­eu, kín­versks at­hafna­manns og ónefndra banda­rískra leyniþjón­ustu­full­trúa í tengsl­um við meint sam­særi um að ráða Kim Jong-un af dög­um.

Í fe­brú­ar sl. var hálf­bróðir Kim, Kim Jong-Nam, myrt­ur af tveim­ur kon­um með tauga­eit­ur­efn­inu VX. Marg­ir vilja meina að stjórn­völd í Pyongyang hafa lagt á ráðin um morðið.

Park var forseti Suður-Kóreu frá árinu 2013 og fram á mitt þetta ár. Hún er nú í haldi en hún hrökklaðist frá völdum eftir að hafa verið sökuð um spillingu í starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert