Tveir látist í árásum bjarndýra

Svartbjörn.
Svartbjörn. Ljósmynd/Wikipedia

Birnir hafa ráðist á fjóra í Alaska á innan við viku. Tveir hafa látist. Ráðist var á tvo menn í Anchorage á laugardag og hlaut annar þeirra svöðusár á hálsi auk þess að tapa hluta upphandleggsvöðvans.

Talið er mögulegt að björninn sem réðst á mennina hafi verið að vernda nálægan hún.

Fyrir um viku réðst björn í vígahug á Erin Johnson, sem var að safna jarðsýnum nærri námu um 275 mílur norðaustur af Anchorage. Johnson lést af sárum sínum og kollegi hennar særðist. Björninn var felldur seinna sama dag.

Degi áður var 16 ára drengur eltur og drepinn af svartabirni þegar hann tók þátt í kapphlaupi nærri Anchorage. Skógarvörður skaut björninn í andlitið en honum tókst að komast undan. Í kjölfarið voru fjórir svartabirnir felldir á Bird Ridge-svæðinu, þeirra á meðal sá er talinn er hafa valdið drengnum bana.

Árásir af þessu tagi eru fátíðar og þá er óvenjulegt að svartabirnir ráðist á fólk. Birnir eru líklegri til að nálgast fólk af forvitni en til að ráðast á það.

Yfirvöld ráðleggja fólki að bera á sér fæluúða eða byssu þegar það fer um heimkynni bjarndýra. Þá er Alaskabúum ráðlagt að standa fremur kyrrir og tala ákveðið við birni ef þeir verða á vegi þeirra, fremur en að hlaupa burtu eða þykjast vera dáinn. Ef björn ræðst til atlögu er ráðlagt að kasta í hann grjóti eða berja í andlitið.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert