Kastaði smápeningum í vélarhreyfilinn

Vél frá China Southern Airlines.
Vél frá China Southern Airlines. Wikipedia/Jules Meulemans

Lögregla var kölluð til í Sjanghæ í Kína í dag eftir að 80 ára gömul kona kastaði smápeningum í hreyfil flugvélar China Southern Airlines. Aðeins ein mynt af níu lenti inni í hreyflinum en það reyndist nóg; rýma þurfti vélina og fresta fluginu.

150 farþegar voru um borð.

Konan sagði í samtali við lögreglu að hún hefði kastað smápeningunum til að kalla gæfu yfir flugið og farið með litla bæn í leiðinni. Hún var á ferð með eiginmanni sínum, dóttur og tengdasyni og var færð til yfirheyslu.

Samkvæmt yfirlýsingu China Southern Airlines var umræddur hreyfill yfirfarinn vandlega áður en vélin fór í loftið á Pudong-alþjóðaflugvellinum fimm tímum síðar.

Atvikið vakti nokkra athygli á samfélagsmiðlinum Weibo, þar sem einn notenda sagði: „Amma, þetta er ekki óskabrunnur með skjaldbökum.“

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert