Lýsa viðskiptum með börn

Að minnsta kosti 300 börn eru fórnarlömb barnaníðinga í máli sem norska lögreglan rannsakar. Alls hafa 84 mál verið rannsökuð frá því í janúar 2016 sem tengjast svonefndri Dark Room-aðgerð.

Hjá lögreglunni í Bergen hafa 33 ný mál verið rannsökuð frá því að greint var frá rannsókninni á blaðamannafundi 20. nóvember í fyrra. 13 mál tilheyra Vest-lögregluumdæminu og 20 mál hafa verið send til annarra lögregluumdæma. 

Samkvæmt frétt Bergens Tidende og Aftenposten er um líkamlegt ofbeldi að ræða í einhverjum tilvikum en í öðrum málum er um að ræða níðinga sem greiddu fyrir níð gegn börnum og horfðu á í gegnum netið.

Í mörgum þeirra hefur lögreglan komist yfir samskipti níðinga við fólk sem býr á því svæði þar sem til stendur að heimsækja. Í frétt Bergens Tidende er hægt að lesa slík samskipti sem send eru í skilaboðum á netinu. Til að mynda - á hvaða aldri viltu þau? Viltu mörg börn? Bæði stráka og stelpur. Síðan er prúttað um verðið og hvað níðingurinn megi gera við börnin.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni kemur fram að í einu tilviki hafi þeir fundið skjal með verðskrá yfir ofbeldi gagnvart börnum er að finna sem og hvaða ferli fer fram eftir að búið að er ganga frá samkomulagi um viðskiptin. Eins leiðbeiningar fyrir aðra níðinga, ferðagögn um staði sem alveg er þess virði að heimsækja viljir þú brjóta gegn börnum.

„Að mínu áliti er Kambódía einn besti staðurinn. Það er ekki eins þekkt og Svay Park var og yfirleitt eru það innfæddir sem annast viðskiptin. Í herbergjunum er fátt annað en rúm og vifta en hvað annað þarftu?“

Sendandinn lýsir einum staðnum sem kjúklingabúi. Þar séu götur með vændishúsum. Hægt sé að fara þar inn og fá sér bjór um leið og þú nærð þér í stúlkubarn og ferð með hana upp í herbergi.

Þarna séu strákar og stelpur á öllum aldri en þau allra yngstu eru ekki auglýst. Biðja verði sérstaklega um þau. Sendandinn tekur fram að herinn stýri svæðinu og aldrei hafi komið upp vandamál með lögreglu sem sé gjörspillt.

Norska öryggislögreglan, Kripos, aðstoðar lögregluna í Vest við rannsóknina, en flest málanna tengjast börnum á Filippseyjum. Að sögn lögreglu fellur hluti af níðinu undir pyntingar. Meðal annars notast níðingarnir við vefmyndavélar við níðingsverk sín. Samið er um greiðslur í gegnum netið og greiða níðingarnir 20-50 Bandaríkjadali fyrir - fjárhæðin ræðst af því hvað börnin eru látin gera fyrir framan myndavélarnar. 

Aftenposten

Fréttatilkynning Kripos 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert