Litla hafmeyjan máluð rauð

Litla hafmeyjan í Kaupmannahöfn.
Litla hafmeyjan í Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íbúar Kaupmannahafnar sem voru snemma á ferðinni í morgun ráku upp stór augu þegar Litla hafmeyjan á Löngulínu blasti við rauð á lit. Thomas Tarpgaard, hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, staðfestir þetta við Politiken. Að minnsta kosti að hún sé ekki lengur bronslituð.

Það var blaðamaður Ekstra Bladet sem lét lögreglu vita af nýjum lit styttunnar en skemmdarvargarnir hafa einnig skrifað með sömu rauðu málningunni að Danir styðji hvalveiðar Færeyinga.

Grindhvaladráp Færeyinga fer fyrir brjóstið á mörgum en við veiðarnar er hundruðum dýra smalað saman og þeim slátrað í sjónum.

Litla hafmeyjan er ýmsu vön en hún fagnaði 100 ára afmæli fyrir þremur árum. Hún hefur margoft verið fórnarlamb skemmdarvarga og árið 1964 var höfuð styttunnar höggvið af. Árið 1984 var handleggur hennar fjarlægður og svo mætti lengi telja.

Frétt Politiken

Frétt Ekstra Bladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert