Vill banna hátíð svartra femínista

AFP

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísarborgar, hefur kallað eftir því að hátíð svartra femínista verði bönnuð þar sem hvítu fólki verður meinaður aðgangur. Samkvæmt heimasíðu Nyansapo Festival verða fjórir fimmtuhlutar hátíðarsvæðsins aðeins opnir svörtum konum, eitt svæði aðeins opið svörtu fólki og eitt svæði opið öllum.

Hidalgo hefur fordæmt skipulagningu hátíðarinnar, sem fer fram í París 28.-30. júlí, og sagst munu fara fram á að hún verði bönnuð. Þá hefur hún hótað skipuleggjendunum lögsókn vegna mismununar.

Talsmaður lögreglunnar sagðist ekki kannast við málið í gær en að lögregla myndi tryggja að farið væri að öllum lögum og gildum lýðveldisins.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt hátiðina harðlega og segja hana m.a. hvetja til kynþáttaaðskilanaðar. International League against Racism and Antisemitism sögðu bandaríska mannréttindafrömuðinn Rosu Parks „snúa sér í gröfinni“ vegna hátíðarinnar.

Samvinnuhópurinn Mwasi og menningarmiðstöðin La Générale, sem standa að viðburðinum, segjast hins vegar fórnarlömb upplýsingafölsunar og falskra frétta.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert