Vekja athygli á bágri stöðu mannréttindamála í Tyrklandi

Óeirðarlögregla handtekur mótmælanda í mótmælum gegn handtöku tyrkneskra yfirvalda á …
Óeirðarlögregla handtekur mótmælanda í mótmælum gegn handtöku tyrkneskra yfirvalda á fræðimanni og kennara í hungurverkfalli. AFP

Í desember sl. sátu um tíu þingmenn HDP-flokks Kúrda í Tyrklandi í varðhaldi, 64 kjörnir borgarstjórar og aðstoðarborgarstjórar kúrdneskra borga, og 2.488 flokksmenn HDP. Þetta er meðal þess sem kemur fram í þriðju skýrslu Imrali sendinefndar European Union Turkey Civic Commission en sendinefndin heimsótti Tyrkland 13.-19. febrúar sl.

Frétt Morgunblaðsins: Fengu ekki að hitta leiðtoga Kúrda

Meðal nefndarmanna er Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og formaður BSRB. Á föstudag afhenti Ögmundur Hjálmari Jónssyni, formanni Blaðamannafélags Íslands, skýrsluna en í henni er sérstaklega vakin athygli á takmörkunum á tjáningarfrelsinu, lokun fjölmiðla og fangelsun blaðamanna sem gagnrýna stjórnvöld.

Í skýrslunni er fjallað um ástandið í Tyrklandi í kjölfar þess að neyðarlög voru sett í landinu eftir misheppnað valdarán í júlí í fyrra. Þar segir m.a. að forsetinn Recep Tayyip Erdogan hafi nýtt sér hið yfirlýsta neyðarástand til að styrkja völd sín og bæla niður alla andstöðu. Þeir sem hafa sótt ofsóknum stjórnvalda eru auk blaðamanna fræðimenn, mannréttindasinnar og einstaklingar innan verkalýðshreyfingarinnar, svo einhverjir séu nefndir.

Eins og sakir standa eru mál 11 þúsund fræðimanna til rannsóknar hjá yfirvöldum en 4.481 hefur verið sagt upp störfum auk 1.102 starfsmanna innan hins akademíska samfélags. Þá hafa 10 þúsund meðlimir kennarasamtakanna Egitim-Sen misst vinnuna, flestir vegna þátttöku sinnar í friðarverkfalli árið 2015.

Um 30 þúsund starfsmönnum á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið sagt upp störfum og samningum 21 þúsund kennara við einkareknar stofnanir verið sagt lausum. Þá hefur 15 háskólum og 900 einkaskólum verið lokað, svo dæmi séu nefnd.

Í skýrslunni er sem fyrr segir sérstaklega fjallað um stöðu fjölmiðla en 839 blaðamenn hafa verið sóttir til saka vegna skrifa sinna, 189 mátt þola ofsóknir af höndum lögreglu og öryggissveita, og þá sat 151 blaðamaður í fangelsi þegar skýrslan var í vinnslu. 176 fjölmiðlum hefur verið lokað, flestum vegna meintra tengsla við hreyfingu klerksins Fethullah Gulen, og fleiri en 3.000 blaðamenn hafa misst vinnuna.

Skýrsluna má finna hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert