Trudeu vill afsökunarbeiðni frá páfa

Frans páfi og Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada funduðu í Vatíkaninu …
Frans páfi og Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada funduðu í Vatíkaninu í dag. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hvatti í dag Frans páfa til að heimsækja Kanada og biðjast þar afsökunar fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar á þeirri meðferð sem kanadískir frumbyggjar sættu í skólum kirkjunnar. 

Frá því á seinni hluta 19. aldar voru um 30% kanadískra barna af frumbyggjaættum sett í sérstaka heimavistarskóla sem stjórnvöld vildu að þurrkuðu út tengsl barnanna við menningu þeirra og tungu. Skólarnir voru fjármagnaðir af ríkinu en reknir af kristnum kirkjum, aðallega kaþólskum kirkjum.

„Ég sagði honum hversu mikilvægt það væri fyrir Kanadamenn að raunverulegar sættir næðust við frumbyggja og ég vakti athygli á því að hann gæti aðstoðað með því að biðjast afsökunar,“ sagði Trudeau við fréttamenn eftir fund sinn með páfa í Vatíkaninu í dag.

Bauð páfa til Kanada

Kvaðst Trudeau hafa boðið páfa til Kanada og að hann gæti beðist afsökunar þar.

Kanadíska sannleiks- og sáttanefndin sagði í skýrslu sem gefin var út 2015 að þeir siðir sem héldu börnum frumbyggja frá foreldrum sínum færu nærri því að vera „menningarlegt þjóðarmorð“. Þá sættu mörg barnanna einnig ofbeldi og kynferðislegri misnotkun.

Nefndin kom með 94 tillögur til sátta, m.a. að páfi gæfi út formlega afsökunarbeiðni fyrir þá sem sendir voru í skólana og afkomendur þeirra.

Sagði Trudeau að páfi hefði í samræðum þeirra minnt sig á að hann hefði alla ævi reynt að styðja þá sem minna mættu sín og að hann hlakkaði til þess í samvinnu við Trudeau og kanadíska biskupa að varða leiðina fram á við.

Hafa kanadískir biskupar sagt að vera kunni að páfi komi í heimsókn til Kanada á næsta ári.

Loftslagsmálin voru einnig á dagskrá á fundi þeirra, en ólíkt Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem fundaði með páfa í síðustu viku, voru þeir Trudeau og páfi sammála um að loftslagsbreytingar mætti rekja til gjörða manna.

„Við ræddum um það hversu mikilvægt það væri að leggja áherslu á vísindagrunn þess að vernda plánetuna okkar og þær siðferðilegu skyldur sem á okkur hvíla til að skapa betri framtíð fyrir alla jarðarbúa,“ hefur Reuters eftir forsætisráðherranum.

Þá sagðist Trudeau, sem er kaþólskrar trúar, „hafa átt í djúpum persónulegum samræðum við trúarleiðtoga sinn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert