Segir skotið vanvirðingu við Kína

Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu birti þessa mynd í gær en hún er …
Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu birti þessa mynd í gær en hún er sögð sýna einræðisherrann Kim Jong-Un fylgjast með prófun nýs eldflaugavarnakerfis. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa sýnt Kína vanvirðingu með síðasta tilraunaskoti sínu. Skotflaugin sem Norður-Kórea skaut á loft í gærkvöldi dró um 450 km og lenti innan efnahagslögsögu Japan, að sögn þarlendra yfirvalda.

„Norður-Kórea hefur sýnt nágranna sínum, Kína, mikla vanvirðingu með því að skjóta á loft enn einni skotflauginni... en Kína er að leggja hart að sér og reyna!“ tísti Trump í dag.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ítrekað verið vöruð við því að ögra nágrönnum sínum og bæði Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar hafa hótað frekari viðskiptaþvingunum. 

Trump lýsti því yfir á fundi G7-ríkjanna í síðustu viku að „hið stóra vandamál“ Norður-Kórea „yrði leyst“. Hann hefur áður sagt að þar komi allir valkostir til álita.

Hingað til hafa stjórnvöld í Washington valið að beita viðskiptaþvingunum og diplómatískum meðulum. Varnarmálaráðherrann James Mattis sagði í viðtali við CBS News í gær að stríð við Norður-Kóreu yrði „hörmulegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert