Samkynhneigður maki ekki nafngreindur

Sambærileg mynd birtist á Facebook-síðu Hvíta hússins.
Sambærileg mynd birtist á Facebook-síðu Hvíta hússins. AFP

Mynd sem birtist á Facebook-síðu Hvíta hússins í síðustu viku hefur valdið töluverðum usla á samfélagsmiðlum og hefur starfsfólk Hvíta hússins verið sakað um fordóma í garð samkynhneigðra vegna hennar. Myndin er af mökum leiðtoga NATO ríkjanna sem tekin var í Laken, höll belgísku konungsfjölskyldunnar í Brussel. Um er að ræða níu konur og einn karlmann, Gauthier Destenay, eiginmann forsætisráðherra Lúxemborgar, Xavier Bettel. Destenay er sá eini sem ekki var nafngreindur á myndinni og vakti það athygli á samfélagsmiðlum. Telegraph greinir frá.

Greg Hogben, aðgerðarsinni og talsmaður hinsegin fólks, er einn þeirra sem tjáði sig um málið á Twitter: „Þetta angrar mig meira en ég get lýst í 140 slögum. Hann heitir Gauthier Destenay – og ætti líka að vera nafngreindur.“

Fjölmargar athugasemdir voru gerðar við myndina á Facebook og hefur myndatextanum núna verið breytt. Í einni athugasemd stóð: „Það er vanvirðing í garð eiginmanns forsætisráðherrans að nafngreina hann ekki, og opinberar einfaldlega heimsku starfsfólks Hvíta hússins.“

Xavier Bettel og Gauthier Destenay giftu sig árið 2013 og hafa þeir ávallt verið mjög opnir varðandi kynhneigð sína. Á því varð engin breyting eftir að sá fyrrnefndi tók við embætti forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert