Munu fá fjögurra daga frest

Fartölva notuð á flugvelli. Talið er líklegt að bann við …
Fartölva notuð á flugvelli. Talið er líklegt að bann við fartölvum í farþegarými flugvéla verði víkkað út. AFP

Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi það hvort bann á fartölvum í farþegarými flugvéla verði víkkað út. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir talsmanni bandaríska heimavarnaráðuneytisins.

Talsmaðurinn David Lapan sagði fréttamönnum að „ekkert væri fyrirsjáanlegt á næstunni,“ varðandi ákvörðun um að víkka út bannið við fartölvum í farþegarými flugvéla – utan þeirra ríkja sem bannið nær til í dag.

Ekki standi til í augnablikinu að láta bannið ná til innanlandsflugs í Bandaríkjunum, né til þeirra flugvéla sem eru að fljúga frá Bandaríkjunum.

Bandaríkin tilkynntu í marsmánuði að bann yrði lagt við því að flytja fartölvur í farþegarými flugvéla sem væru á leið til Bandaríkjanna frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sádi-Arabíu, Katar og Tyrklandi vegna ótta við að hægt væri að fela sprengju í raftækjunum.

Yfirvöld í Bretlandi tóku fljótt upp sams konar reglur, en sem ná til annarra flugvalla.

Lapan sagði heimavarnarráðuneytið engu að síður telja líklegt að fartölvubannið yrði víkkað út og að viðræður við ríki Evrópu um málið væru ekki samningaviðræður, heldur myndi heimavarnaráðherra taka slíka ákvörðun byggða eingöngu á matinu á því hvort ógn væri fyrir hendi.

Þá sagði hann að yrði bannið víkkað út fengju þeir flugvellir sem það tæki til fjóra daga til að bregðast við, líkt og gert var síðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert