Kínverjar í „salernisbyltingu“

Maður fær úthlutað klósettpappírsskammti.
Maður fær úthlutað klósettpappírsskammti. AFP

Yfirvöld í Kína hafa uppfært um 50.000 klósett í „salernisbyltingu“ sem miðar að því að gera almenningssalerni landsins meira aðlandandi fyrir ferðamenn. Fyrir árslok verður búið að fegra samtals 71.000 salerni en víða hafa úrbæturnar snúið að því að koma nýjum og glansandi klósettskálum fyrir þar sem áður var aðeins hola í jörðinni.

Samkvæmt ríkisfréttastofunni Xinhua hafa ferðamenn löngum kvartað undan ófullnægjandi salernisaðstöðu og óhreinlæti á helstu ferðamannastöðum en í aðgerðaáætlun yfirvalda felst m.a. að fjölga ræstingarstarfsmönnum.

Að því er fram kom í fregn Xinhua segjast 80% ferðamanna nú sáttir við almenningssalerni Kína, samanborið við 70% árið 2015.

Áskoranir yfirvalda hvað varða almenningssalernin snúa að fleiru en hreinlæti en sums staðar hefur verið gripið til þess ráðs að taka upp auðkenningu til að sporna við salernispappírsþjónaði. Andlit notenda eru þannig skönnuð áður en þeir fá úthlutað viðeigandi pappírsskammti.

Árum saman hafa skemmtileg skilti hangið uppi á kínverskum salernum, karlmönnum til aðstoðar. Þar eru þeir hvattir til að stíga fram og miða vel. „Eitt lítið skref, eitt stórt stökk fyrir siðmenninguna,“ stendur á skiltunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert