Þúsundir hafast við í neyðarskýlum

Vatn er enn á götum margra bæja og þorpa.
Vatn er enn á götum margra bæja og þorpa. AFP

Björgunarteymi dreifa í dag neyðarbirgðum til fólks á helstu flóðasvæðunum á Sri Lanka. Meira en hálf milljón manna hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna. Að minnsta kosti 146 hafa látist og 112 er enn saknað. Tugir hafa verið fluttir slasaðir á sjúkrahús.

Árstíðabundnar rigningar hafa verið óvenjumiklar síðustu daga. Flóð hafa orðið og aurskriður. Þó að dregið hafi úr rigningunni liggur enn mikið vatn yfir láglendum svæðum. Aurskriður hafa hrifið með sér heilu þorpin á sumum svæðum. 

Þegar stytti upp í dag flýttu björgunarmenn sér á vettvang til að koma hreinu vatni og mat til fólksins sem verst hefur orðið úti. 

Kona gengur yfir aurskriðu í Kalutara á Sri Lanka. Þúsundir …
Kona gengur yfir aurskriðu í Kalutara á Sri Lanka. Þúsundir hafa misst heimili sín. AFP

Gríðarleg úrkoma féll á föstudag og hefur ekki rignt jafnmikið í suður- og vesturhluta landsins í fjórtán ár. 

Um 2.000 hús eru skemmd eða ónýt. Þeir sem hafa flúið hamfarirnar dvelja flestir í neyðarskýlum sem sett hafa verið upp. Mörg börn eru í hópi þeirra sem hafa misst heimili sín.

Mjög brýnt er að koma fólkinu sem fyrst til aðstoðar, sérstaklega er nauðsynlegt að það fái hreint vatn að drekka til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert