Sýna samstöðu með býflugutattúi

Íbúar í Manchester sýna samstöðu með því að fá sér …
Íbúar í Manchester sýna samstöðu með því að fá sér býflugutattú. Skjáskot/Instagram

Íbúar í Manchester fara misjafnar leiðir til að tjá sorg sína og samhug eftir hryðjuverkin á mánudag. Fjölmargir hafa lagt blóm á torg og götur um borgina. Aðrir hafa skrifað skilaboð með krít á gangstéttar. Enn aðrir heiðra minningu fórnarlambanna 22 með því að láta setja á sig tattú af býflugu.

Í frétt CNN um málið segir að býflugan hafi lengi verið einkennistákn Manchester-borgar. Táknar flugan hversu iðnir íbúar borgarinnar eru, rétt eins og hunangsflugurnar sem eru stöðugt að. Nú hefur flugan fengið enn eina merkinguna; hún stendur fyrir minningu þeirra sem létust í árásinni, styrk borgarbúa og samheldni.

Húðflúrarinn Sam Barber hóf að hvetja fólk til að fá sér mynd af býflugu á líkamann til að sýna samstöðu með þeim sem misstu ástvini í árásinni og til að safna fjármunum fyrir fjölskyldur sem eiga um sárt að binda. Þeir sem fá sér húðflúrið gefa 50 pund, um 6.500 krónur, í sjóð til styrktar aðstandendum fórnarlambanna í gegnum hópfjármögnunarsíðu. Fjölmargir húðflúrarar taka þátt í átakinu.

Barber segir í samtali við CNN að býflugan sé augljóst tákn styrks fyrir borgarbúa sem hafa ætíð staðið saman. Hún segir að síðustu dagar hafi sýnt að enginn íbúi Manchester hafi látið óttann yfirtaka líf sitt eftir árásina. 

Boðskapur Barber breiddist fljótt út og það eru ekki aðeins íbúar í Manchester sem hafa ákveðið að fá sér húðflúr af hunangsflugu. Fólk í London sem og utan Bretlands hefur einnig tekið þátt. Húðflúrarar í Kanada, Ástralíu og víðar hafa fengið beiðnir um að flúra býflugur á fólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert