„Stríðsherbergi“ og starfsmannabreytingar í Hvíta húsinu

Donald Trump og Melania sneru aftur til Bandaríkjanna í gær …
Donald Trump og Melania sneru aftur til Bandaríkjanna í gær eftir níu daga ferðalag utan landsins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst gera breytingar á starfsliði sínu í kjölfar ásakana um tengsl starfsmanna hans við Rússa. Þá ætlar forsetinn að setja á fót samráðshóp til að takast á við brýn mál. Slíkt er kallað „stríðherbergi“ í Hvíta húsinu.

Þetta hefur Washington Post eftir heimildarmönnum innan Hvíta hússins.

Trump sneri aftur til Bandaríkjanna í gær í kjölfar níu daga ferðar utan landsteinanna. Tók hann m.a. þátt í fundi leiðtoga hinna svokölluðu G7-ríkja á Sikiley. Þá fór hann til Sádi-Arabíu og Ísraels.

Í frétt Washington Post segir að stefnt sé að stefnubreytingu hvað varðar samskipti Hvíta hússins og Trumps sjálfs við almenning. Er m.a. stefnt að því að Trump fari víðar og tali á opnum fundum við stuðningsmenn sína. Þá verður gerð breyting á blaðamannafundum í Hvíta húsinu og segir í frétt blaðsins að líklega verði dregið úr hlutverki blaðafulltrúans Sean Spicer.

Þá verði einnig gerð stefnubreyting á nálgun ríkisstjórnar Trumps við Bandaríkjaþing.

Talið er mögulegt að Trump muni fá fólk sem stóð honum nærri í kosningabaráttunni til liðs við sig í Hvíta húsinu, m.a. Corey Lewandowski sem var rekinn úr starfi kosningastjóra fyrir um ári. Einnig er David N. Bossie nefndur til sögunnar en hann var aðstoðarkosningastjóri Trumps. Báðir þessir menn hafa tekið þátt í að ræða ráðagerðir um að útbúa „stríðherbergi“ í Hvíta húsinu en einn helsti ráðgjafi Trumps, Stephen K. Bannon, hefur leitt þá vinnu.

„Stríðsherbergið“ er vettvangur þar sem aðstoðarmenn Trumps og ráðgjafar koma saman til að leggja á ráðin um aðgerðir í einstökum brýnum málum. Hugtakið var m.a. notað um samráðshóp Bills Clinton í kjölfar máls Monicu Lewinsky sem Clinton hélt við um skeið en þrætti fyrir í fyrstu. Hugmyndin er að umræður um tiltekin mál fari fram í þessum hópi svo að önnur hefðbundnari málefni haldi áfram í sínum formlega farvegi óháð þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert