Stökk frá borði flugvélar

Flugvélin var stödd á flugbrautinni og var að undirbúa flugtak …
Flugvélin var stödd á flugbrautinni og var að undirbúa flugtak er maðurinn stökk frá borði. AFP

Farþegi um borð í flugvél American Airlines á flugvelli í Norður-Karólínu reyndi að bíta flugfreyju, opnaði svo dyr vélarinnar og stökk út á flugbrautina. Vélin hafði ekki enn tekið á loft er atvikið átti sér stað.

Í frétt CNN um málið segir að farþeginn, Tun Lon Sein, tali litla ensku og því sé ekki enn ljóst hvers vegna hann brást við með þessum hætti. Hann hefur verið kærður og mætti fyrir dóm á föstudag. Réttarhöldunum var hins vegar frestað því ekki fannst túlkur sem talar tungumál hans. Sein er frá Búrma.

Verið var að aka flugvélinni út á flugbrautina frá flugstöðvarbyggingunni og undirbúa flugtak er Sein stóð upp úr sæti sínu og fór að hurð og reyndi að opna hana. Flugfreyja kom að og reyndi að stöðva hann. Tveir farþegar reyndu að aðstoða hana við það. Sein reyndi að bíta flugfreyjuna, tókst svo að opna dyr vélarinnar og stökk svo út á flugbrautina.

Starfsmenn á flugvellinum náðu að koma í veg fyrir að hann hlypi í veg fyrir aðrar vélar sem voru að taka á loft. Hann var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús.

Yfirvöld telja að Sein hafi þekkt til öryggisreglna um borð í flugvélum. Hann hafi átt að sjá að sætisbeltaljósið var kveikt og að aðrir flugfarþegar sátu í sætum sínum. Þá hafði hann flogið tvisvar sinnum innan Bandaríkjanna áður en hann fór um borð í vélina í Charlotte í Norður-Karólínu.

Í yfirlýsingu frá American Airlines segir að vélin hafi verið yfirfarin að nýju á vellinum en tekið svo á loft og verið á áfangastað á réttum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert