Enn öngþveiti á Heathrow

Tugum flugferða var aflýst í gær og sömu sögu er …
Tugum flugferða var aflýst í gær og sömu sögu er að segja í dag. AFP

Meira en þriðjungi allra flugferða British Airways frá Heathrow hefur verið aflýst í dag. Í gær var öllu flugi félagsins frá vellinum aflýst vegna tölvubilunar. Vonast var til að í dag yrði flug á áætlun að mestu leyti. Allt annað er þó uppi á teningnum og segir í frétt BBC að enn ríki öngþveiti á Heathrow vegna málsins.

Í gær urðu þúsundir farþega frá að hverfa vegna tölvubilunarinnar. Flugi var ýmist frestað eða því aflýst. Öllu flugi félagsins frá Gatwick var aflýst í gær. Í dag hafa verið tafir en engum flugferðum félagsins hefur verið aflýst þaðan.

Talsmenn British Airways hafa hvatt farþega til að leggja ekki af stað út á flugvöll fyrr en brottfarartími véla hafi verið staðfestur.

Á fimm klukkustunda tímabili í morgun voru 143 flug British Airways áætluð frá Gatwick og Heathrow. Aðeins 90 vélar hafa hins vegar tekið á loft frá Heathrow og 36 flugferðum hefur verið aflýst. 

Að auki hefur fólk sem gat flogið með flugfélaginu í gær sumt hvert ekki fengið farangur sinn. Flugfélagið hefur þurft að greiða öllum strandaglópum bætur og útvega þeim hótelgistingu.

Farþegar British Airways bíða á JFK-flugvellinum í New York eftir …
Farþegar British Airways bíða á JFK-flugvellinum í New York eftir upplýsingum um sín flug. Tölvubilunin hefur haft víðtæk áhrif á allt áætlunarflug félagsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert