Búið að opna Magasin á ný

Magasin stendur við Kongens Nytorv.
Magasin stendur við Kongens Nytorv. Af Wikipedia

Búið er að opna verslunina Magasin du Nord við Kóngsins Nýtorg í Kaupamannhöfn á ný eftir að hún var rýmd í morgun. Ekstra Bladet segir að sprengjuhótun hafi borist. Aðgerðir lögreglunnar stóðu yfir í rúmar tvær klukkstundir. Lestarstöðinni við torgið var einnig lokað um tíma í dag vegna aðgerða lögreglu.

Í samtali við Danska ríkisútvarpið í dag sagði lögreglufulltrúinn sem stjórnaði aðgerðum að grunsamlegt atvik hefði orðið til þess að ákveðið var að rýma bygginguna. Lögreglan hefur ekki staðfest að um sprengjuhótun hafi verið að ræða.

Tilkynning barst lögreglu um kl. 12.20 að staðartíma, um 10.20 að íslenskum tíma. Verslunin var opnuð aftur kl. 15 að staðartíma, 13 að íslenskum tíma, að því er fram kemur í frétt Ekstra Bladet.

Lögreglan er þó enn á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert