Vildi leynilínu til Rússlands

Jared Kushner og Donald Trump.
Jared Kushner og Donald Trump. AFP

Tengdasonur Donalds Trump Bandaríkjaforseta, Jared Kushner, lagði það til við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum að komið yrði upp leynilegri samskiptalínu við rússnesk stjórnvöld sem ekki væri hægt að hlera. Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá þessu í gærkvöldi en Kushner er auk þess að vera tengdasonur Trumps einn helsti ráðgjafi hans.

Fram kemur í fréttinni að tillöguna hafi Kushner sett fram fyrir embættistöku Trumps í janúar. Hann hafi enn fremur lagt til að notast yrði við búnað rússneska sendiráðsins til þess að halda samskiptalínunni leyndri. Rússneski sendiherrann, Sergei Kislyak, upplýsti yfirboðara sína í Rússlandi um tillöguna sem sett var fram á fundi sem fram fór í Trump Tower, heimili Trumps í New York, í byrjun desember.

Fundinn sat einnig Mike Flynn sem síðar varð þjóðaröryggisráðgjafi Trumps til skamms tíma og varð að segja af sér vegna ásakana um óeðlileg samskipti við rússneska sendiherrann fyrir embættistöku Trumps. Bandaríska forsetaskrifstofan greindi ekki frá fundinum fyrr en í mars og lagði áherslu á að hann hefði haft litla þýðingu. Hins vegar herma heimildir Washington Post að bandaríska alríkislögreglan FBI telji ástæðu til þess að rannsaka fundinn betur sem og annan fund sem Kushner hafi átt með rússneskum bankamanni.

Málið vekur upp frekari spurningar um tengsl helstu ráðgjafa Trumps við rússnesk stjórnvöld og embættismenn. Furðulegt þykir að Kushner hafi viljað koma upp slíkri samskiptalínu í samstarfi við Rússa í stað þess að notast við þær leiðir sem bandarískar leyniþjónustustofnanir geti boðið upp á. Einnig kemur fram í fréttinni að Kushner hafi rætt um mögulega leynifundi fulltrúa bandarískra og rússneskra stjórnvalda þar sem nauðsynlegt væri fyrir ráðgjafa Trumps að geta átt áfram í samskiptum við embættismenn rússneskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert