Hundur snýr aftur án lambs

Bella og Blake hafa verið óaðskiljanleg síðan þau hittust fyrst.
Bella og Blake hafa verið óaðskiljanleg síðan þau hittust fyrst. Mynd/Facebook

Hvarf fjárhundsins Blake og lambsins Bellu hefur vakið töluverða athygli í Bretlandi, en um er að ræða bestu vini sem hafa verið óaðskiljanleg síðan þau hittust fyrst. 

Blake og Bella hurfu frá heimili sínu í Notthinghamskíri fyrir þremur vikum, en nú er Blake kominn í leitirnar, án Bellu sinnar. Eigandi dýranna, Natalie Haywood, segir Blake vel á sig kominn og að hann láti eins og ekkert hafi í skorist. Haywood saknar hins vegar enn þá Bellu, en er sannfærð um að Blake muni aðstoða við leitina að henni. BBC greinir frá.

Þúsundir hafa skráð sig í Facebook-hóp sem heldur utan um leitina og sjónvarpsmaðurinn Philip Schofield hefur boðið 1.000 pund í fundarlaun. Átta öryggismyndavélar voru settar upp til að reyna að hafa upp á vinunum og leitarhundar hafa lagt sitt af mörkum. Þá hefur leitin fengið sitt eigið myllumerki: #findblakeandbella. Því verður þó væntanlega breytt núna í #findbella.

Bella var aðeins fimm vikna þegar Haywood tók hana að sér. Blake tók strax ástfóstri við litla lambið og fljótlega voru þau farin að fylgja hvort öðru hvert fótspor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert