Frysta yfir 200 fjáröflunarsíður

Fólk er hvatt til að leggja pening í ákveðinn sjóð …
Fólk er hvatt til að leggja pening í ákveðinn sjóð fyrir fórnarlömbin. AFP

Fjáröflunarfyrirtækið JustGiving hefur fryst yfir 200 fjáröflunarsíður sem settar hafa verið upp til styrktar fórnarlömbum hryðjuverkaárásarinnar í Manchester og aðstandenda þeirra, af ótta við að þar séu á ferð svikahrappar sem ætli sér að reyna að græða á harmleiknum. The Independent greinir frá.

Þær fjárhæðir sem einstaklingar hafa þegar lagt í fjáraflanirnar verða ekki dregnar af reikningum fyrr en fyrirtækið hefur náð að sannreyna að síðurnar séu ætlaðar til að aðstoða fórnarlömbin og aðstandendur þeirra.

Haft verður samband við alla þá, sem eru skráðir fyrir síðum sem ætlaðar eru ákveðnum fórnarlömbum, og það kannað hvort þeir hafi einhverja tengingu við fjölskyldur þeirra. Fyrirtækið gerir þetta í samstarfi við lögregluna en vonast er til að í ljós komi að um heiðarlega einstaklinga sé að ræða í langflestum tilfellum.

JustGiving tók jafnframt þá óvenjulegu ákvörðun að óska eftir því að fólk legði frekar pening í einn ákveðinn sjóð, ætlaðan öllum fórnarlömbunum, heldur en að leggja inn á síður í nafni einstakra fórnarlamba. Um er að ræða The We Love Manchester Fund en í sjóðinn hafa safnast fimm milljónir punda síðan honum var komið á fót á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert