Frestar ákvörðun um Parísarsáttmálann

Trump þarf meiri tíma til að hugsa sig um.
Trump þarf meiri tíma til að hugsa sig um. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar ekki að taka ákvörðun um það fyrr en í næstu viku hvort stjórnvöld þar í landi ætli að virða Parísarsáttmálann um loftslagsmál, eða draga sig út úr honum. The Independent greinir frá.

Leiðtogafundi helstu iðnríkja heims, G7-hópsins, lauk á Ítalíu í dag og var það niðurstaða fundarins að leiðtogar ríkjanna hefðu ekki náð samkomulagi um að virða sáttmálann af þesum sökum. Hin sex ríki hópsins samþykktu hins vegar að virða hann. „Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru að fara yfir stefnu í sína í loftslagsmálum og því ekki í stöðu til að taka þátt í samkomulagi um málaflokkinn að svo stöddu,“ segir í tilkynningu frá fulltrúum fundarins.

Trump hefur áður hótað að draga Bandaríkin út úr samkomulaginu og jafnframt afneitað gróðurhúsaáhrifunum og hlýnun jarðar. Trump segist þurfa meiri tíma til að hugsa sig um til að geta tekið ákvörðun um hvort Bandaríkin ætli sér að virða sáttmálann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert