Flugáætlun British Airways í uppnámi

AFP

Breska flugfélagið British Airways hefur aflýst öllum flugferðum frá flugvöllunum Heathrow og Gatwick í London, höfuðborg Bretlands, þar til klukkan 17:00 í dag að íslenskum tíma í kjölfar alvarlegrar bilunar í tölvukerfum félagsins sem hefur áhrif á starfsemi þess um allan heim. Fjallað er um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Flugfélagið hefur beðist afsökunar á stöðu mála. Unnið sé að því að koma tölvukerfunum í samt lag. Öllum farþegum verði boðið annað flug eða endurgreiðsla. Fram kemur í fréttinni að ekkert bendi til þess á þessu stigi að um tölvuárás hafi verið að ræða. Önnur flugfélög sem fljúga frá Heathrow og Gatwick hafa ekki orðið fyrir áhrifum af þessu.

Bilunin hefur haft í för með sér að hluti af vefsíðu British Airways liggur niðri og sumir farþegar hafa ekki getað innritað sig í flug í gegnum app félagsins. Flugvélar flugfélagsins hafa ekki getað tengst flugstöðvunum þar sem flugvélar þess, sem eiga að vera farnar í loftið, hafa ekki getað það. Farþegar hafa fyrir vikið ekki getað yfirgefið flugvélarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert