23 þúsund íslamistar í Bretlandi

Vopnaðir lögreglumenn á verði í Manchester.
Vopnaðir lögreglumenn á verði í Manchester. AFP

Breska leyniþjónustan hefur upplýsingar um 23 þúsund íslamska öfgamenn í Bretlandi sem gætu hugsanlega gripið til hryðjuverka samkvæmt frétt breska dagblaðsins Times. Stjórnvöld í Bretlandi greindu frá þessu í gær í kjölfar gagnrýni um að leyniþjónustan hafi vitað um öfgafullar skoðanir Salmans Abedi sem framdi hryðjuverkið í Manchester á mánudagvöldið og fyrir vikið haft tækifæri til þess að koma í veg fyrir árásina.

Fram kemur í fréttinni að talið sé að af þessum 23 þúsund manns sé hætta talin stafa af þrjú þúsund manns og eru fyrir vikið annaðhvort til rannsóknar eða fylgst með þeim. Breska lögreglan og leyniþjónustan eru með um 500 mál í gangi þar sem fylgst er með íslömskum öfgamönnum. Ekki var lengur virkt eftirlit með Abedi og ekki heldur Khalid Masood sem framdi hryðjuverkaárás við breska þinghúsið fyrr á þessu ári.

Haft er eftir Ben Wallace, ráðherra öryggismála í bresku ríkisstjórninni, að þessi mikli fjöldi mögulegra hryðjuverkamanna sýndi stærðargráðu þeirrar ógnar sem Bretland stæði frammi fyrir. Fyrir vikið væri gríðarlega mikilvægt að fjárfesta frekar í öflugri leyniþjónustu. Samkvæmt fréttinni hefur breska leyniþjónustan MI5 ekki burði til þess að rannsaka fleiri en þrjú þúsund einstaklinga í einu. Fólki sé bætt í þann hóp eða tekið úr honum á grundvelli mats á því af hverjum stafi mest hætta á hverjum tíma.

„Getum ekki látið eins og þetta sé ekki að gerast“

Leyniþjónusta Bretlands hefur verið gagnrýnd fyrir þetta mat sitt í ljósi þess að hætt hefur verið eftirliti með einstaklingum sem síðan hafi framið hryðjuverk eins og Abedi og Masood. Fleiri dæmi eru um þetta. Morðingjar breska hermannsins Lee Rigby árið 2013 höfðu verið til rannsóknar en síðan verið teknir af listanum yfir þá íslamista sem mest hætta var talin stafa af. Sérfræðingar hafa rætt um erfiðleikana sem geti fylgt því að meta hvenær einstaklingar séu líklegir til þess að fremja hryðjuverk og hvenær ekki.

Haft er eftir Raffaello Pantucci, framkvæmdastjóra alþjóðaöryggismála hjá stofnuninni Royal United Services Institute, að tölurnar væru óhugnanlegar en kæmu hins vegar ekki á óvart. Í tilfelli margra þessara einstaklinga væri íslamisminn aldrei langt undan. Anthony Glees, yfirmaður rannsókna í öryggis- og leyniþjónustumálum við Buckingham-háskóla, segir hræðilegt að hugsa til þess að 23 þúsund mögulegir vígamenn séu í Bretlandi. „Við ættum að tvöfalda stærð MI5, eins og við gerðum í síðari heimsstyrjöldinni.“ Enn fremur þyrfti að auka verulega getu lögreglunnar til þess að takast á við hryðjuverkaógnina.

„Við getum ekki látið eins og þetta sé ekki að gerast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert