122 farist í flóðum á Sri Lanka

Stjórnvöld á Sri Lanka hafa stóraukið viðbúnað sinn um helgina vegna óveðurs sem kostað hefur að minnsta kosti 122 mannslíf. Um hálf milljón manna hefur þurft að flýja heimili sín. Enn er hætta á frekari flóðum vegna árstíðarbundinna rigninga.

Í gær olli úrkoman mestu flóðum sem orðið hafa í landinu í fjórtán ár. Verst er ástandið á suður- og vesturhluta eyjarinnar. Í dag hefur dregið úr úrkomunni en vatn liggur enn yfir stórum láglendum svæðum. 

Staðfest er að 122 eru látnir og ljóst að sú tala gæti átt eftir að hækka þar sem 97 manns er saknað. Til viðbótar hafa 49 verið fluttir á sjúkrahús, m.a. eftir að hafa orðið undir aurskriðum.

Herinn á Sri Lanka tekur þátt í björgunarstörfum og leita hermenn fólks á lífi í skriðum sem hafa fallið og undir braki. Enn hefur ekki tekist að komast til nokkurra þeirra svæða sem hafa orðið hvað verst úti.

Drengur ber eigur sínar í gegnum flóðavatn í bæ á …
Drengur ber eigur sínar í gegnum flóðavatn í bæ á Sri Lanka. AFP
Vatn liggur enn yfir svæðum sem eru á láglendi.
Vatn liggur enn yfir svæðum sem eru á láglendi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert