Talin hafa myrt allt að 60 ungabörn

AFP

Hjúkrunarfræðingur, sem situr í fangelsi í Texas-ríki í Bandaríkjunum fyrir morð á ungabarni fyrir rúmum 30 árum síðan, hefur verið ákærður fyrir að myrða annað ungabarn og er enn fremur talið hugsanlegt að hún beri ábyrgð á dauða allt að 60 ungabarna.

Fram kemur í frétt AFP að hjúkrunarfræðingurinn, Genene Jones, sem í dag er á sjötugsaldri, sitji í fangelsi fyrir að hafa myrt ungabarn árið 1984 og reynt að myrða annað sem lifði af. Haft er eftir saksóknaranum Nico LaHood í fréttinni að Jones sé hreinræktuð illska.

Jones, sem starfaði á bráðadeild fyrir börn, hefur verið ákærð fyrir að myrða 11 mánaða gamalt barn með banvænni sprautu árið 1981. Fram kemur í yfirlýsingu frá skrifstofu saksóknara að hún sé grunuð um að myrða allt að 60 ungabörn.

Fangelsisdómur Jones hljóðaði upp á 99 ár fyrir morðið árið 1984 en samkvæmt þeim lögum sem voru í gildi þegar hún var sakfelld ber að láta hana lausa í mars á næsta ári. Ákæruvaldið hefur hins vegar lýst því yfir að reynt verði að koma réttlæti yfir hana fyrir öll þau börn sem hún kunni að hafa myrt. Réttað yrði yfir henni áður en henni yrði sleppt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert