Súrefnisþjófnaður vekur ótta á Everest

Everest, hæsta fjall á jörðu. Metfjöldi fjallgöngumanna reynir að komast …
Everest, hæsta fjall á jörðu. Metfjöldi fjallgöngumanna reynir að komast á tind Everest þetta árið, þjófnaður á súrefniskútum úr efri búðum virðist einnig fara vaxandi.

Töluverð aukning hefur verið í þjófnaði á súrefniskútum frá fjallgöngufólki í efri búðum Everest þetta árið. Hefur málið valdið bæði erlendum fjallgöngumönnum og sjerpunum sem leiðbeina þeim miklum áhyggjum, enda geta nægar súrefnisbirgðir skilið milli lífs og dauða í háfjallaloftinu.

BBC segir þjófnaðinn geta ógnað lífi þeirra fjallgöngumanna sem hafa komið sér upp birgðum á fjallinu, til að bregðast við seinkunum af völdum veðurs, sem og fyrir gönguna niður aftur. Síðustu hópar þeirra sem vonast til að komast á topp Everest þetta árið bíða þess nú að veður batni og þeir geti lokið för sinni á tindinn.

„Þetta er að verða alvarlegt vandamál þarna uppi,“ hefur BBC eftir sjerpanum Nima Tenji, en hann og fleiri sérfræðingar segja stóra hópa, sem margir séu með óreynda fjallgöngumenn og óreynda leiðsögumenn innan sinna raða, eiga sinn þátt í vandanum.

„Ég er stöðugt að fá þær fréttir af hópum að súrefniskútarnir þeirra séu horfnir og það kann að reynast lífshættulegt, sérstaklega ef þeir eru búnir með það súrefni sem þeir báru með sér á uppleið og eru ekki komnir á tindinn enn þá, nú eða þá ef þeir ætla að nota birgðirnar á leiðinni til baka.

Erlendir fjallgöngumenn hafa einnig birt færslur um málið á samfélagsmiðlum.

„Sjö súrefniskútar til viðbótar eru horfnir úr birgðum okkar,“ skrifaði Tim Mosedale, sem fór fyrir einum leiðangrinum, á Facebook síðasta mánudag.

Einn sjerpanna hefði sem betur fer haft næga orku til að kanna birgðir þeirra á næstu stöð. „En verða þær enn þar þegar við komum þangað eftir nokkra daga, eða munu fleiri flöskur af töfralofti vera horfnar?“

Mosedale hafði áður sett inn færslu um sams konar þjófnað við Lhotse í nágrenni Everest. Hann bendir á að á meðan menn viti að búið sé að nota súrefnið þá geti þeir fyllt á aftur. „En að koma og taka það veldur ekki bara vanda fyrir hópinn, heldur hættir lífi annarra fjallgöngumanna.“

Phurba Namgya, formaður samtaka nepalskra fjallaleiðsögumanna, segir vandann vaxandi og að fjallgöngumenn hafi orðið að snúa aftur án þess að ná á tindinn af því að þeir hafi komist að því að ekki væru til súrefniskútar. Þá sé það eina í stöðunni að snúa aftur niður í grunnbúðir. Grunur er sagður leika á að hópar sem eru illa undir gönguna búnir og sem lenda í hættulegum aðstæðum steli kútunum. Þá hefur einnig færst í vöxt að súrefniskútum sé stolið úr efri búðum og þeir seldir aftur í grunnbúðum.

Hver fjallgöngumaður notar að meðaltali sjö súrefniskúta á leið sinni upp og niður Everest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert