„Stór hluti“ ábyrgra verið handtekinn

Mikil sorg hefur ríkt í Manchester síðustu daga.
Mikil sorg hefur ríkt í Manchester síðustu daga. AFP

Breska lögreglan hefur handtekið „stóran hluta“ þeirra sem stóðu að baki hryðjuverkaárásinni í Manchester á mánudag. Þetta sagði yfirmaður hjá hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar í dag. 22 létu lífið og 59 slösuðust þegar Salman Abedi sprengdi sig í loft upp í lok tónleika tónlistarkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni.

Átta hafa þegar verið handteknir í Bretlandi og eru í haldi lögreglu grunaðir um tengingu við árásina. Þá hafa faðir og bróðir Abedis verið handteknir í Líbíu og eru því alls tíu í haldi. Meðal þeirra átta sem eru í haldi í Bretlandi er Ismail Abedi, 23 ára gam­all bróðir árás­ar­manns­ins.

„Við erum mjög glöð með að hafa náð að handtaka marga þeirra sem áttu stóran þátt í árásinni, en það er enn smá eftir,“ sagði Mark Rowley, yfirmaður hjá hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar í dag.

Salman Abedi var 22 ára gamall.
Salman Abedi var 22 ára gamall. AFP

Mik­ill viðbúnaður er í Bretlandi en rann­sókn lög­reglu bein­ist einkum að því hvort hryðju­verka­hóp­ur frá Líb­ýu hafi staðið á bak við árás­ina. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.

Um er að ræða átta menn á aldrinum 18-38 ára, þar af þrítugan mann sem handtekinn var í Moss Side, úthverfi Manchester í morgun. Íbúi á svæðinu segist hafa vaknað við hróp og köll í lögreglumönnum í morgun, þegar verið var að handtaka manninn.

Hashem Abedi, bróðir Salmans, er á meðal þeirra sem eru …
Hashem Abedi, bróðir Salmans, er á meðal þeirra sem eru í haldi. AFP

Lög­regl­an leitaði á nokkr­um stöðum í Manchester í gær og fann meðal ann­ars hluti sem svip­ar til þeirra sem notaðir voru í sprengj­una sem sprakk í and­dyri tón­leika­hall­ar­inn­ar á mánu­dags­kvöldið. Lög­regl­an hef­ur varað við því að ekki sé úti­lokað að sam­starfs­menn Abedi gangi enn laus­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert