Sektaðir fyrir að bólusetja ekki börn sín

Þýskir foreldrar eiga nú á hættu að verða sektaðir láti …
Þýskir foreldrar eiga nú á hættu að verða sektaðir láti þeir ekki bólusetja börn sín gegn mislingum.

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa uppi áætlanir um að sekta þá foreldra sem neita að láta bólusetja börn sín. Mun sektarupphæðin nema allt að 2.500 evrum eða um 280.000 kr.

Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Hermann Gröhe, sagði í samtali við dagblaðið Bild að mislingafaraldur hefði það í för með sér að nauðsynlegt væri að herða löggjöfina. „Áframhaldandi dauðsföll af völdum mislinga geta ekki látið neinn ósnortinn,“ sagði hann.

Vilja þýsk stjórnvöld nú, að sögn BBC, að stjórnendur leikskóla tilkynni um alla þá foreldra sem ekki framvísi bólusetningaskírteini frá lækni. Framvísi foreldrar ekki slíkum miða kann það að hafa í för með sér að barn þeirra verður gert brottrækt af leikskólanum þegar lagabreytingarnar taka gildi í næsta mánuði.

Þriggja barna móðir lést úr mislingum í borginni Essen fyrr í þessari viku.

Þá hafa heilbrigðisyfirvöld á Ítalíu tilkynnt um tæplega þrisvar sinnum fleiri mislingatilfelli það sem af er þessu ári en allt árið í fyrra. Þar í landi samþykktu stjórnvöld í síðustu viku að foreldrar yrðu að bólusetja börn sín gegn 12 algengum sjúkdómum áður en börnin fengjust innrituð í þá skóla sem reknir eru af ríkinu. Meðal þeirra sjúkdóma sem bólusetja þarf fyrir eru mislingar, lömunarveiki, kíghósti og lifrarbólga B.

Samkvæmt upplýsingum frá Robert Koch-stofnuninni í Þýskalandi hefur verið tilkynnt um 410 mislingatilfelli í Þýskalandi það sem af er þessu ári, en allt árið í fyrra voru mislingatilfellin 325.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert