Rekin fyrir að tala um „lokalausn“

AFP

Breski stjórnmálaskýrandinn Katie Hopkins hefur verið rekin frá útvarpsstöðinni LBC en talið er að ástæðan sé færsla sem hún ritaði á Twitter-síðu sína nokkrum klukkustundum eftir hryðjuverkið sem framið var í Manchester í Bretlandi á mánudagskvöldið. Þar sagði hún þörf fyrir lokalausn (e. final solution) í kjölfar árásarinnar.

Hugtakið lokalausn, eða „Endlösung“, var notað af þýskum nasistum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar yfir útrýmingu gyðinga. Fram kemur á Twitter-síðu LBC að útvarpsstöðin og Hopkins hafi komist að samkomulagi um að hún hætti samstundis störfum. Hopkins var með vikulegan útvarpsþátt á sunnudögum á stöðinni.

Kvartað var til lögreglunnar vegna ummæla Hopkins sem er þekkt fyrir umdeildar skoðanir sínar á ýmsum málum og þar á meðal á íslam og hryðjuverkaógninni. Hopkins hefur eytt færslunni á Twitter segir í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert