Fórnarlamb sýruárásar fagnar ástinni

Það hvarflaði ekki að Lalitu að hún myndi finna ástina.
Það hvarflaði ekki að Lalitu að hún myndi finna ástina. Skjáskot af Hindustian Times

Hin indverska Lalita Ben Bansi fagnaði brúðkaupi sínu á dögunum, ásamt eiginmanninum Ravi Shankar. Það eitt og sér er varla fréttnæmt, en eftir að Lalita varð fyrir sýruárárs árið 2012 hvarflaði ekki að henni að hún myndi nokkurn tíma verða hamingjusöm. Hvað þá giftast manni sem hún elskar og elskar hana.

„Hverjum hefði dottið í hug að eftir sýruárás og 17 aðgerðir myndi ég finna ástina, en það gerðist, og það er kraftaverk,“ sagði hin 26 ára Lalita í samtali við Hindustan Times eftir athöfnina.

Eiginmanninum kynntist hún þegar hún hringdi óvart í skakkt númer. „Hún hringdi óvart í mig fyrir þremur mánuðum og ég hringdi í hana aftur 15 dögum síðar. Við töluðum saman í smá tíma og ég varð ástfanginn af röddinni. Eftir það töluðum við daglega saman og ég ákvað að biðja hennar,“ segir Ravi.

Í einu samtali þeirra deildi Lalita því með Ravi að hún hefði orðið fyrir sýruárás. Það hafði hins vegar engin áhrif á tilfinningar hans sem var staðráðinn í að giftast konunni sem hann hafði orðið ástfanginn af í gegnum síma. „Það að hún beri ör eftir sýruárás í andlitinu skiptir mig engu máli. Hún er alveg dásamleg manneskja og ég vona að við munum eiga gott líf saman.“

Talið er að um 1.000 konur verði fyrir sýruárás á Indlandi á hverju ári, en margar árásir eru ekki tilkynntar og því gætu þær verið mun fleiri. Í flestum tilfellum eru það ættingjar kvenna sem ráðast á þær með þessum hætti. Ekki eru allar konurnar jafnheppnar og Lalita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert