Eiginmaður ráðherra eini herrann

Myndum af Gauthier Destenay ásamt eiginkonum þjóðarleiðtoga hefur verið deilt …
Myndum af Gauthier Destenay ásamt eiginkonum þjóðarleiðtoga hefur verið deilt víða um netheima, og hafa fjölmargir fagnað fjölbreytileikanum. AFP

Á meðan þjóðarleiðtogar sátu fund Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel í gær komu makar þeirra saman í myndatöku. Eini herramaðurinn á myndinni, Gauthier Destenay, hefur vakið heimsathygli en hann er eiginmaður Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar. Hefur fjöldi fólks fagnað fjölbreytileikanum á samfélagsmiðlum. 

Destenay er þekktur sem „fyrsti herramaður“ (e. The First Gentleman) Lúxemborgar en þeir Bettel giftu sig árið 2015 þegar samkynja hjónabönd voru lögleidd í landinu. Er Bettel eini opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims í dag. Aðeins hafa tveir aðrir forsætisráðherrar verið opinberlega samkynhneigðir en það eru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, og Elio Di Rupo, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu. 

Gauthier Destenay er eiginmaður Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar.
Gauthier Destenay er eiginmaður Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar. AFP

Af myndum að dæma virðist Destenay vera alsæll í félagsskap eiginkvenna þjóðarleiðtoganna sem sátu fundinn.

Bettel hefur aldrei farið leynt með kynhneigð sína og í kosningabaráttunni árið 2013 sagðist hann ekki hafa áhuga á neinum feluleik. „Fólk kaus mig ekki út af kynhneigðinni minni,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert