Ariana Grande tjáir sig eftir árásina

Ariana Grande hyggst snúa aftur til Manchester.
Ariana Grande hyggst snúa aftur til Manchester. AFP

Söngkonan Ariana Grande hyggst snúa aftur til Manchester þar sem hryðjuverkaárás var gerð í lok tónleika hennar á mánudag, til að halda styrktartónleika fyrir aðdáendur sína sem létust eða slösuðust í árásinni og fjölskyldur þeirra.

„Við munum ekki láta hatrið vinna“

„Okkar svar við þessu ofbeldi verður að vera að standa saman, hjálpa hvert öðru, elska meira, syngja hærra og vera vingjarnlegri og örlátari en við vorum áður,“ skrifar Grande í yfirlýsingu sem hún birti á Twitter nú í kvöld. 

Þar segist hún vilja gera allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa aðdáendum sínum sem lentu í árásinni og fjölskyldum þeirra. „Við munum ekki hætta eða láta óttann stjórna okkur. Við munum ekki láta þetta sundra okkur. Við munum ekki láta hatrið vinna,“ skrifar hún. „Ég vil ekki að þetta ár líði án þess að ég geti séð og upphafið aðdáendur mína á sama hátt og þeir upphefja mig.“

Mikil sorg hefur ríkt í Manchester síðustu daga.
Mikil sorg hefur ríkt í Manchester síðustu daga. AFP

Tónleikar eigi að vera öruggur staður

Þá skrifar Grande að tónleikar hennar eigi umfram allt að vera öruggur staður fyrir aðdáendur sína. „Staður fyrir þá til að komast í burtu, fagna, læknast, líða vel og vera þeir sjálfir. Að láta ljós sitt skína. Þetta mun ekki breyta því.“

Segir hún að tónleikagestir hennar séu fallegur, fjölbreytilegur og hamingjusamur hópur. Þúsundir manna af öllum stærðum og gerðum komi þar saman af sömu ástæðu; tónlist. „Tónlist á að lækna okkur, færa okkur nær hvert öðru, gera okkur hamingjusöm. Svo það mun hún halda áfram að gera fyrir okkur,“ skrifar söngkonan.

Mun hafa áhrif á hana það sem eftir er

Í yfirlýsingunni lýsir Grande því að árásin hafi haft djúpstæð áhrif á sig, og hún hafi ekki hætt að hugsa um aðdáendur sína síðustu daga.

„Við munum halda áfram að heiðra minningu þeirra sem við misstum, ástvini þeirra, aðdáendur mína og alla þá sem þessi skelfilega árás hafði áhrif á. Þeir verða í huga mínum og hjarta alla daga og ég mun hugsa til þeirra í öllu sem ég mun taka mér fyrir hendur það sem eftir er af ævi minni,“ skrifar Grande að lokum.

Yfirlýsinguna má sjá í heild hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert