„Við erum ekki hrædd“

Vopnuð lögregla við eftirlit við Manchester Arena í kjölfar árásarinnar. …
Vopnuð lögregla við eftirlit við Manchester Arena í kjölfar árásarinnar. Tónleikagestir hafa gagnrýnt lélega öryggisgæslu í tónleikahöllinni. AFP

Búist er við að þúsundir manna komi saman á minningarstund í Manchester í kvöld, þar sem fórnarlamba hryðjuverkanna í borginni í gærkvöldi verður minnst.

„Sýnum samstöðu og sýnum þeim sem vilja hræða okkur að við erum ekki hrædd,“ segir í tilkynningu um minningarstundina, en safnast verður saman við Albert Square klukkan 18 í kvöld.

Hryðjuverkamenn sigra aldrei

Andy Burman, borgarstjóri Manchester, sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að stuðningur frá borgum um allan heim væri ómetanlegur. „En ekki síst vil ég þakka íbúum Manchester. Aðeins mínútum eftir árásina opnuðu þeir dyrnar fyrir ókunnugu fólki og komu því í burtu frá hættu. Þeir gáfu besta mögulega andsvarið við þeim sem vilja sundra okkur. Og það verður andinn í Manchester sem mun sigra og þjappa okkur saman,“ sagði hann.

Þá sagði borgarstjórinn að hryðjuverkamenn myndu „aldrei sigra“ og hvatti borgarbúa til að standa saman gegn hatrinu. „Við syrgjum í dag en við erum sterk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert