Georgina var fórnarlamb árásarinnar

Georgina Callander með söngkonunni Ariana Grande á tónleikum fyrir tveimur …
Georgina Callander með söngkonunni Ariana Grande á tónleikum fyrir tveimur árum. Callander var í hópi þeirra sem létust í árásinni í gær. Ljósmynd/Instagram Georgina.bethany

Georgina Callander, 18 ára félags- og heilsufræðinemi, var í hópi þeirra 22 sem létust í sjálfsvígsárás á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena tónleikahöllinni í gærkvöldi.

Fréttavefur Guardian greindi frá þessu nú í morgun, en hún er fyrsta fórnarlambið sem greint hefur verið frá nafni á.

BBC kveðst hins vegar hafa heimildir fyrir því að yngsta fórnarlamb árásarinnar hafi verið á grunnskólaaldri.

Callander var nemi við Runshaw College-háskólann og hefur skólinn sent frá sér yfirlýsingu þessa efnis. „Það er okkur mikil sorg að tilkynna að svo virðist sem einn okkar nema við Runshaw College hafi látist í árásinni í Manchester á mánudagskvöld,“ segir í yfirlýsingunni.

„Samúð okkar, hugur og bænir eru hjá öllum vinum og fjölskyldu Georginu og öllum þeim sem hafa orðið fyrir þessum missi.“

Callander var nemi á öðru ári í heilbrigðis- og félagsfræðivísindum. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum hefur verið komið á fót sérstöku teymi og býðst þeim sem voru nánir Callander að þiggja áfallahjálp.

Guardian segir nokkuð um það enn þá að foreldrar auglýsi eftir börnum og unglingum sem ekki hafa skilað sér heim eftir tónleikana, en staðfest hefur verið að börn séu í hópi hinna látnu.

Þá hafa 59 manns, sem særðust, hlotið aðhlynningu á átta sjúkrahúsum borgarinnar. Um 21.000 manns voru á tónleikunum þegar árásin var gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert