Fundu myndskeið af árásarmanninum

Lögreglan í Manchester hefur fundið myndskeið úr eftirlitsmyndavélum sem sýnir árásarmanninn Salman Abedi ganga inn í Manchester Arena-tónleikahöllina í gærkvöldi og sprengja sig í loft upp. Talið er að sprengjan hafi verið heimatilbúin og Abedi hafi komið með hana inn í tónleikahöllina í tösku.

Lögreglan telur að sprengjan hafi verið sett saman í Bretlandi. Ekki er hins vegar ljóst hvort Abedi hafi sett hana saman sjálfur eða notið utanaðkomandi aðstoðar.

Um var að ræða sjálfs­morðssprengju­árás og hafa hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams lýst yfir ábyrgð á ódæðinu sem varð 22 að bana. Þá slösuðust 59 en árás­in var gerð á tón­leika­höll­ina við lok tón­leika banda­rísku söng­kon­unn­ar Ari­ana Grande.

Bretland hafi tekið skref afturábak í öryggismálum

Á vef Guardian er haft eftir embættismanni að Bretland hafi tekið skref afturábak í öryggismálum. Um sé að ræða fyrstu sprengjuárásina í landinu síðan árið 2005, eða í tólf ár. 

Lög­regla hafði áður haft af­skipti af Abedi að því er fram kem­ur í frétt Guar­di­an. Skil­ríki hans fund­ust á vett­vangi en talið er að hann hafi ferðast frá London til Manchester til að fremja ódæðis­verkið. Lög­regla hef­ur nú leitað á heim­ili bróður hans í Manchester og hand­tekið einn mann.

Ian Hopk­ins lög­reglu­stjóri sagði fyrr í dag að nú væri for­gangs­mál að rann­saka hvort Abedi hafi verið einn að verki eða hvort hann hafi verið hluti af stærra neti. Rann­sókn á mál­inu er nú í full­um gangi hjá yf­ir­völd­um í Bretlandi.

Fórnarlambanna var minnst í Manchester í kvöld.
Fórnarlambanna var minnst í Manchester í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert