Árásarmaðurinn „rólegur og kurteis“

Mikil sorg ríkir í Manchester eftir árásina.
Mikil sorg ríkir í Manchester eftir árásina. AFP

„Hann var svo rólegur og kurteis strákur.“ Svona lýsir einn aðili líbíska samfélagsins í Manchester hinum 22 ára gamla Salman Abedi sem framdi hryðjuverkaárásina þar í borg í gærkvöldi.

„Bróðir hans, Ismael, er mjög opinn og mannblendinn en Salman var mjög rólegur og þögull. Mann hefði aldrei grunað að hann gæti gert eitthvað þessu líkt,“ er haft eftir ónafngreindum aðila líbíska samfélagsins í Manchester á AFP-fréttaveitunni. 

Sonur líbískra flóttamanna

Eins og mbl.is hefur greint frá var Abedi fædd­ur í Manchester árið 1994 og var son­ur líb­ískra flótta­manna sem komu til Bret­lands til að flýja stjórn Gaddafi. Abedi var einn fjög­urra systkina. Faðir Abedi er þekktur í líbíska samfélaginu í Manchester, en talið er að fjölskyldan hafi nýverið snúið aftur til Líbíu.

Um var að ræða sjálfs­morðssprengju­árás og hafa hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams lýst yfir ábyrgð á ódæðinu sem varð 22 að bana. Þá slösuðust 59 en árás­in var gerð á Manchester Ar­ena-tón­leika­höll­ina við lok tón­leika banda­rísku söng­kon­unn­ar Ari­ana Grande.

Leituðu á heimili bróðurins

Lög­regla hafði áður haft af­skipti af Abedi að því er fram kem­ur í frétt Guar­di­an. Skilríki hans fundust á vettvangi en talið er að hann hafi ferðast frá London til Manchester til að fremja ódæðisverkið. Lögregla hefur nú leitað á heimili bróður hans í Manchester og handtekið einn mann.

Lögreglan í Manchester hefur staðfest að Abedi sé hinn grunaði. Sagði Ian Hopkins lögreglustjóri að nú væri for­gangs­mál að rann­saka hvort Abedi hafi verið einn að verki eða hvort hann hafi verið hluti af stærra neti. Rann­sókn á mál­inu er nú í full­um gangi hjá yf­ir­völd­um í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert