Amma bjargaði 50 börnum

Tónleikagestir bíða fyrir utan tónleikahöllina eftir árásina. Paula fór með …
Tónleikagestir bíða fyrir utan tónleikahöllina eftir árásina. Paula fór með 50 börn á næsta hótel og reyndi að koma á sambandi við foreldra þeirra. AFP

Paula Robinson bjargaði rúmlega 50 börnum, sem voru strandaglópar fyrir utan Manchester Arena-tónleikahöllina eftir sjálfsvígsárásina á tónleikum Ariönu Grande í gærkvöldi. Robinson, sem er sjálf amma, tók börnin með sér á hótel í nágrenninu, huggaði þau og tók að sér að vera tengiliður fyrir örvæntingarfulla foreldra sem óttuðust það versta.

22 létust í árásinni, þar á meðal nokkur börn, og 59 særðust. Ástand margra er alvarlegt að sögn heilbrigðisyfirvalda í Manchester og ljóst að margir eiga eftir að vera lengi að jafna sig. 12 börn voru í hópi hinna særðu.

Robinson hefur verið lofuð á samfélagsmiðlum í dag fyrir að taka að sér að sjá um börnin, en tímaritið Rolling Stone hefur eftir henni að hún sé „engin hetja.“

Hún var stödd við Victoria-lestarstöðina þegar hún heyrði „háan hvell“, sá sprenginguna og svo fljótlega eftir það fjölda ungra barna koma hlaupandi hrædd út.

Paula Robinson sagðist bara hafa gert það sem hún vildi …
Paula Robinson sagðist bara hafa gert það sem hún vildi að aðrir gerðu fyrir sín börn og barnabörn í sömu stöðu.

Robinson tók strax til sinna ráða og safnaði að sér jafnmörgum krökkum og hún gat og fór með þau á næsta hótel þar sem hún gaf þeim heitt að drekka, faðmaði og huggaði þá sem þurftu á því að halda og auglýsti símanúmer sitt á samfélagsmiðlum í því skyni að reyna að koma foreldrum í samband við börn sín.

„Ég gerði ekkert sem allir aðrir hefðu ekki gert. Ég hugsaði um mín eigin börn og veit hvað ég vildi að einhver gerði fyrir þau. Ég hefði viljað að einhver annaðist þau og kæmi þeim á brott af svæðinu ef ég gæti ekki gert það sjálf,“ sagði Robinson.

„Allir voru á fullu á Facebook, þannig að ég hugsaði að ef ég gæti komið símanúmerinu mínu þar út og fengið fólk til að deila því þá gæti fólk hringt í mig og ég vonandi hjálpað eitthvað smávegis,“ sagði hún. „Ég á börn og barnabörn og mér líður illa að hugsa um að börn hafi farist.“

Robinson hefur verið lofuð á samfélagsmiðlum í dag. „Fólk eins og Paula veita okkur von um að það sé meira gott en illt í heiminum,“ skrifaði Martina Carson, ein þeirra sem deildi pósti Robinson á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert