Um 300 Bretar berjast með Ríki íslams

Ríki íslams er fyrirferðarmikið í Írak og Sýrlandi. Um 300 …
Ríki íslams er fyrirferðarmikið í Írak og Sýrlandi. Um 300 Bretar eru enn í röðum vígamannanna. AFP

Allt að 300 Bretar eru enn að berjast sem liðsmenn Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. Þetta segir Breti sem sjálfur barðist með vígamönnunum en lagði svo á flótta frá þeim. 

Stefan Aristidou, 23 ára, segir frá reynslu sinni í viðtali við Telegraph. Hann var handtekinn í síðustu viku eftir að hafa gefið sig fram við yfirvöld í bænum Kilis í Tyrklandi sem er skammt frá landamærunum að Sýrlandi.

Aristidou segir að milli 250 og 300 Bretar séu enn að berjast fyrir Ríki íslams. Flestir eru þeir í Sýrlandi. Hann segir fæsta þeirra taka beinan þátt í árásum. Flestir vinni við að koma áróðri hryðjuverkasamtakanna á framfæri. Hann segir þá marga hverja háttsetta. 

Aristidou yfirgaf Bretland árið 2015 ásamt kærustu sinni sem einnig er bresk. Parið segist ekki hafa farið til Sýrlands til að berjast með Ríki íslams en að þau hafi viljað lifa í samfélagi þar sem sjaría-lög væru í gildi. Þau settust að í Raqqa og giftu sig í febrúar í fyrra. 

Aristidou flutti svo til Mosúl áður en að íraski stjórnarherinn náði þar völdum á ný. Hann segist hafa lent upp á kant við yfirmenn sína hjá Ríki íslams og snúið aftur til Raqqa. Þá hafi hann verið orðinn tekjulaus.

Hann segir að sér hafi liðið eins og hann væri í fangelsi og undirbjó flótta sinn vikum saman. Hann og eiginkonan höfðu eignast barn og fyrr á þessu ári náðu þau að flýja með aðstoð smyglara. Þau fóru svo yfir landamærin til Tyrklands þann 20. apríl. 

Aristidou segist átta sig á því að líklega lendi hann í fangelsi fyrir að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin. Hann vilji engu að síður snúa aftur til Bretlands og byggja líf sitt þar upp að nýju. 

Hann dvelur enn í Tyrklandi og enn er óljóst hvort réttað verður yfir honum þar eða hvort hann verður framseldur til Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert