Jasítar lausir úr haldi

Jasítar kveikja á kertum í Írak.
Jasítar kveikja á kertum í Írak. AFP

Þrjátíu og sex Jasítar eru lausir úr haldi vígamanna Ríkis íslams í norðurhluta Íraks. Hópurinn hafði verið í haldi vígamannanna í næstum því þrjú ár, að sögn talsmanna Sameinuðu þjóðanna. 

Fólkið er nú komið í bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna í Dohuk í kúrdíska hluta Íraks. 

Í frétt BBC segir að ekki sé ljóst hvort  fólkið náði að sleppa eða hvort því var gefið frelsi. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa ekki enn talið tímabært að svara slíkum spurningum þar sem staða fólksins er enn viðkvæm. Þá eru enn fleiri Jasítar í haldi Ríkis íslams og frelsun þeirra yrði stefnt í voða.

Jasítar (e. Yazidis) eru minnihlutahópur í Írak. Trúarbrögð fólksins samanstanda af þáttum úr ýmsum trúarbrögðum og hefur hópurinn lengi orðið fyrir miklum ofsóknum af hálfu margra annarra hópa. Um 500 þúsund Jasítar eru í heiminum, m.a. í Írak, Sýrlandi og Kákasusfjöllunum.

Vígamenn Ríkis íslams myrtu og hnepptu þúsundir Jasíta í þrældóm er þeir tóku bæinn Sinjar á sitt vald árið 2014. 

Kúrdar náðu valdi á bænum að nýju árið 2015 en margir Jasítar voru þá í haldi vígamannanna annars staðar þar sem hryðjuverkasamtökin höfðu sölsað undir sig land víðar í norðurhluta Íraks. 

Í hópnum sem nú er laus úr haldi eru karlar, konur og börn. Fólkið er nú komið í bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna. Þar mun það hitta fjölskyldur sínar og fá læknisaðstoð. „Það sem þessar konur og stúlkur hafa gengið í gegnum er ólýsanlegt,“ segir Lisa Grande, starfsmaður Sameinuðu þjóðanna, sem hlúð hefur að konum í hópnum. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað vígamenn Ríkis íslams um þjóðarmorð gagnvart Jasítum. Í haldi þeirra eru enn um 1.500 konur og stúlkur af Jasíta-þjóðinni. Sameinuðu þjóðirnar saka Ríki íslams um nauðganir og önnur grimmdarverk.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert