Handtekinn fyrir njósnir í Þýskalandi

Ákveðin bankaleynd ríkir í Sviss. Þýsk stjórnvöld hafa því keypt …
Ákveðin bankaleynd ríkir í Sviss. Þýsk stjórnvöld hafa því keypt gögn af uppljóstrurum um viðskipti Þjóðverja við bankana. AFP

Svisslendingur var handtekinn í Frankfurt á föstudag, grunaður um njósnir.

Í frétt BBC segir að saksóknari í Þýskalandi hafi manninn grunaðan um að hafa starfað fyrir leyniþjónustu erlends ríkis, allt frá því snemma árs árið 2012. Fréttir í Þýskalandi herma að maðurinn hafi m.a. njósnað um starfsmenn skattrannsóknarstjóra í landinu.

Skattayfirvöld í Þýskalandi hafa keypt gögn af uppljóstrurum sem tengjast viðskiptavinum svissneskra banka. Vilja skattayfirvöld hafa hendur í hári þeirra Þjóðverja sem fela fé á bankareikningum í Sviss. 

Málið hefur, að því er fram kemur í frétt BBC, spillt sambandi svissneskra og þýskra stjórnvalda. Stjórnvöld í Sviss telja það rangt að borga fyrir gögn sem stolið er úr bönkum þar í landi. Þjóðverjar segjast með aðgerðum sínum vera að uppljóstra um skattsvik.

Hinn meinti njósnari er kallaður Daniel M í þýskum fréttum. Hann er sagður 54 ára gamall. Hann var handtekinn á föstudag en handtökuskipunin var gefin út í desember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert