Frakkar felldu hóp skæruliða

Franskir hermenn að störfum í Malí.
Franskir hermenn að störfum í Malí. AFP

Franski herinn hefur um helgina fellt yfir tuttugu skæruliða sem földu sig í skógi á landamærum Vestur-Afríkuríkjanna Malí og Búrkína Fasó. Farið var í aðgerðina í kjölfar þess að franskur hermaður var drepinn fyrr í þessum mánuði. 

Árásin um helgina var gerð bæði úr lofti og á landi. Ekki kemur fram í tilkynningu franska hersins hvaða samtökum skæruliðarnir tilheyrðu.

Íslamskir öfgahópar hafa sótt í sig veðrið í Malí síðustu misseri. Árið 2013 leiddi Frakkar mikla hernaðaraðgerð til að koma þeim frá borgum í norðurhluta landsins sem þeir höfðu náð á sitt vald. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu.

Árásir og ofbeldisverk hafa aukist í nágrannaríkinu Búrkína Fasó allt frá því á síðasta ári. Tugir hafa fallið, m.a. í höfuðborginni.

Stjórnvöld þar í landi telja að ný skæruliðahreyfing, Ansar al-Islam, beri ábyrgð á flestum árásunum. Þau samtök eru þekkt fyrir að fela sig í skóginum þar sem árás Frakka var gerð um helgina.

Um 4.000 franskir hermenn eru nú á þessu svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert