Forðast ekki lengur fangelsi með hjónabandi

Líbanon er eitt þeirra ríkja þar sem nauðgarar geta enn …
Líbanon er eitt þeirra ríkja þar sem nauðgarar geta enn forðasta fangelsi með því að giftast fórnarlambi sínu. Þessi innsetning líbönsku listakonunnar Mireille Honein er ætlað að mótmæla lögunum. AFP

Stjórnvöld í Jórdaníu afnámu í gær lagaklásúlu sem verndaði nauðgara fyrir refsingu, svo framarlega sem þeir giftust fórnarlambinu. Kvenréttindasamtök, fræðimenn úr röðum múslima og kristinna hafa árum saman barist fyrir því að lagagreinin yrði felld úr gildi að sögn fréttavefjar BBC.

Lögin fólu í sér að nauðgarar gátu komist hjá refsingu svo framarlega sem þeir giftust fórnarlambi sínu og hjónabandið hélt í þrjú ár. Stuðningsmenn laganna sögðu þau verja heiður og orðspor fórnarlambanna.

Nokkur breyting var gerð á lögunum á síðasta ári og var þeim þá breytt á þann veg að nauðgari gat bara gifst fórnarlambi sínu ef það var á aldrinum 15-18 ára og ef talið var að árásin hefði verið framin með samþykki beggja. Í febrúar á þessu ári lagði hins vegar nefnd á vegum jórdönsku konungsfjölskyldunnar til að lögin yrðu felld úr gildi með öllu.

Dagblaðið Jordan Times hefur eftir aðgerðarsinnanum Lailla Naffa að „draumur hafi ræst“ með afnámi laganna.

Neydd til að giftast til að bjarga heiðri fjölskyldunnar

Noor er ein þeirra kvenna sem var neydd til að giftast nauðgara sínum þegar hún var aðeins tvítug. Maðurinn var yfirmaður hennar á sextugsaldri. Hann hafði boðið henni tvær töflur þegar hún kvartaði um höfuðverk og í kjölfarið missti hún meðvitund.

„Ég mundi ekki hvað gerðist eftir það, en ég vaknaði og fann að ég var nakin og að mér hafði verið nauðgað,“ sagði Noor í samtali við kvenréttindasamtökin Equality Now.

Hún þorði ekki að segja fjölskyldu sinni hvað hefði gerst. Það var ekki fyrr en hún uppgötvaði að hún væri ólétt að hún fann kjarkinn til að kæra manninn. Hann bauðst hins vegar til að giftast henni samkvæmt lögunum og Noor átti einskis annars kost. „Mér var hatur í hjarta þegar fjölskylda mín neyddi mig til að giftast honum til að bjarga heiðri fjölskyldunnar.“

Baráttunni fyrir afnámi þessarar lagagreinar er þó fjarri því að vera lokið í öðrum ríkjum Mið-Austurlanda. Sambærileg lög hafa engu að síður þegar verið afnumin í Marokkó, Egyptalandi, Eþíópíu og til stendur að fella þau úr gildi í Bahrain á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert