Sprengjunni ætlað að drepa lögreglumenn

Norður-írskir lögreglumenn að störfum í Belfast.
Norður-írskir lögreglumenn að störfum í Belfast. AFP

Sprengja sem skilin var eftir utan við barnaskóla í Belfast á Norður-Írlandi á sunnudagsmorgun var sett þar til að drepa lögreglumenn. Þetta hefur BBC eftir lögreglu á Norður-Írlandi sem segir sprengjuna hafa verið allstóra og að lögreglumennirnir sem komu að henni á eftirlitsferð sinni í gærmorgun, hefðu getað drepist eða særst alvarlega.

„Það leikur enginn vafi á að búnaðurinn var skilinn þarna eftir til að reyna að drepa lögreglumenn á eftirlitsferð á sínu svæði, en hann var líka skilinn eftir með svo kæruleysislegum hætti og á þannig stað að hann hefði án efa valdið dauða eða alvarlegum meiðslum hjá almenningi ef sprengjan hefði sprungið þegar fólk var í nágrenninu,“ segir Chris Noble, lögregluforingi á Norður Írlandi.

„Við teljum þetta vera tilraun af hendi ofbeldisfullra andófsmanna úr hópi lýðræðissinna til að drepa lögreglumenn. Þetta var þó líka mjög andfélagsleg aðgerð hvað staðsetningu varðar.“

Sagði hann íbúa í nágrenninu hafa verið í hættu, en lögregla rýmdi nærliggjandi hús á meðan sprengjan var gerð óvirk.

James Brokenshire, ráðherra Norður-Írlands í bresku ríkisstjórninni, sagði tilraunina sýna fullkomna vanvirðingu fyrir mannslífinu og að tilræðismenn hefðu þarna getað sett líf barna í hættu.

„Afleiðingarnar hefðu getað verið hræðilegar og þetta sýnir hvers konar menn þetta raunverulega eru,“ sagði Brokenshire. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert