Víðtækur stuðningur við Macron

Emmanuel Macron og Marine Le Pen.
Emmanuel Macron og Marine Le Pen. AFP

Skoðanakannanir benda til þess að Emmanuel Macron verði næsti forseti Frakklands en hann og Marine le Pen munu takast á um hylli franskra kjósenda næstu tvær vikurnar. Fjölmargir stjórnmálamenn, bæði vinstri og hægri menn, hafa lýst yfir stuðningi við Macron í seinni umferðinni sem fram fer 7. maí. 

Þegar talningu atkvæða er lokið er ljóst að miðjumaðurinn Macron fékk 23,75%, fulltrúi þjóðernisflokksins Front National, Le Pen, 21,53%, repúblikaninn François Fillon 19,91%, vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon 19,64% og frambjóðandi sósíalista Benoît Hamon 6,35%.  Það eru því hvorki fulltrúar sósíalista né repúblikana sem taka þátt í seinni umferð frönsku forsetakosninganna og eftir því sem næst verður komist er það í fyrsta skipti frá því fimmta lýðveldi Frakklands var stofnað í lok seinni heimsstyrjaldarinnar sem það gerist. Macron verður því væntanlega fyrsti og um leið yngsti forseti Frakklands sem ekki kemur úr stóru flokkunum tveimur. Það er því óhætt að segja að nýr kafli sé að hefjast í franskri stjórnmálasögu og skiptir þar í raun engu hvort þeirra verður forseti - þau setja mark á söguna.

Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður, sem búsett hefur verið í París í um fjörutíu ár, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að kosningabaráttan hafi verið með þeim eftirminnilegri. „Maður fann það í borginni að það hefur aldrei verið jafnmikil óvissa um úrslitin og nú,“ segir Laufey.

Hún segir fáa hafa trúað því í upphafi að Macron myndi ná svona langt. „En maður fann strax og sá að hann er eldklár, en þeir sem gagnrýna hann segja að hann sé hálfgerður tilbúningur.“

Hún segir nær öruggt að Macron muni fara með sigur af hólmi í seinni umferðinni, þar sem franskir kjósendur muni taka höndum saman til þess að koma í veg fyrir að Le Pen verði forseti.

Hún bendir á að Macron hafi tekið fylgi frá bæði hægri og vinstri mönnum, og nefnir hún meðal annars sem dæmi að græninginn Daniel Cohn-Bendit, sem varð frægur í stúdentauppreisninni 1968, hafi meira að segja lýst yfir stuðningi við Macron. „Það geta allir kosið hann, hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri.“

Fillon er meðal þeirra sem þegar hafa lýst yfir stuðningi við Macron en hann sakar flokk Le Pen um að vera þekktan fyrir ofbeldi og öfgahyggju. „Það er ekkert annað í boði en að greiða atkvæði gegn öfgum til hægri,“ er haft eftir Fillon þegar ljóst var að Macron og Le Pen hefðu fengið flest atkvæði í fyrri umferðinni.

Hamon hvatti einnig stuðningsmenn sína til að kjósa Macron á sama tíma og hann ítrekaði þá skoðun sína að Macron væri ekki vinstri maður. En málið snerist ekki um andstæða póla í pólitík heldur að koma í veg fyrir að óvinur lýðveldisins næði völdum.

Forsetaframbjóðanda En Marche ! Emmanuel Macron fagnað af stuðningsmönnum við …
Forsetaframbjóðanda En Marche ! Emmanuel Macron fagnað af stuðningsmönnum við komuna á veitingastaðinn La Rotonde í París í gærkvöldi. AFP

Sósíalistinn og forseti Frakklands, François Hollande, hringdi í Macron í gærkvöldi og óskaði honum til hamingju en Macron var ráðherra í ríkisstjórn Hollande frá 2014 til 2016. Aðstoðarmenn Hollande segja að hann muni fljótlega lýsa yfir fullum stuðningi við framboð Macron.

Bernard Cazeneuve forsætisráðherra hefur einnig lýst yfir stuðningi við Macron í baráttunni gegn Front National og ömurlegri áætlun flokksins um hnignun Frakklands og óeiningu meðal Frakka. 

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP


Borgarstjórinn í Bordeaux og fyrrverandi forsætisráðherrann Alain Juppé, sem sóttist eftir því að verða frambjóðandi repúblikana, segir að hann þurfi ekki að hugsa sig tvisvar um hvernig hann greiði atkvæði í seinni umferðinni. Hann muni greiða Macron atkvæði gegn öfgahægri sem myndi leiða Frakkland inn í hörmungar.

Ekki eru allir vinstri menn sáttir við Macron og segja hann taka hagsmuni viðskiptalífsins fram yfir hagsmuni almennings. Meðal þeirra sem ekki ætla að lýsa yfir stuðningi við hann er Jean-Luc Melenchon, sem er öfgamaður til vinstri. Hann segir að það sé ekki hans að segja stuðningsmönnum sínum hvað þeir eigi að kjósa heldur eigi þeir að taka sjálfstæða ákvörðun þar um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert