Kærði Duterte fyrir glæpadómstólinum í Haag

Rodrigo Duterte forseti Filippseyja ásamt heiðursverði hersins. Duterte hefur nú …
Rodrigo Duterte forseti Filippseyja ásamt heiðursverði hersins. Duterte hefur nú verið kærður fyrir Alþjóða glæpadómstólinum í Haag. AFP

Lögfræðingur einnar af fyrrverandi leyniskyttum Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, kærði í dag forsetann fyrir Alþjóða glæpadómstólnum í Haag.

Kæruna lagði filippeyski lögfræðingurinn Jude Sabio, fram gegn Duterte og stjórn hans og sakar hann þá að sögn Reuters-fréttastofunnar um glæpi gegn mannkyni í baráttu stjórnarinnar gegn fíkniefnasölu.

Segir í kærunni sem er 77 síðna löng, að Duterte hafi „ítrekað“ og „stöðugt“ framið glæpi gegn mannkyni og að undir hans stjórn hafi morð á meintum fíkniefnasölum og öðrum glæpamönnum orðið stöðluð venja.

Sabio er lögfræðingur Edgar Matobato, sem bar vitni fyrir filippseyska þinginu, að hann hefði verið í dauðasveitum sem störfuðu samkvæmt skipunum Dutertes.

Kæra Sabios byggir á vitnisburði Matobato og fyrrverandi lögreglumannsins Arturo Lascanas, vitnisburðum sem mannréttindasamtök hafa safnað saman, sem og frásögnum fjölmiðla af drápunum.

Í kærunni er fullyrt að Duterte og 11 hátt settir embættismenn í stjórn hans beri ábyrgð á morðunum og að þörf sé á rannsókn, handtökum og réttarhöldum.

Löggjafinn á Filippseyjum fann engar sannanir fyrir vitnisburði Matobatos fyrir filippseyska þinginu og talsmenn forsetans hafa fullyrt að frásagnir hans séu tómur hugarburður.

Tæplega 9.000 manns hafa verið myrtir á Filippseyjum frá því að Duterte tók við embætti síðasta sumar.

Lögregla fullyrðir að þriðjungur þeirra morða hafi verið framinn í sjálfsvörn við löggiltar lögregluaðgerðir. Mannréttindasamtök segja að tveir þriðju hluti morðanna hafi verið framin af fólki sem tekið hefur lögin í sínar hendur, eða af lögreglumönnum sem dulbúið hafa sig sem sjálfskipaða löggæslumenn.

Lögregla hefur alfarið hafnað slíkum ásökunum og Duterte hefur að sama skapi harðneitað öllum tengslum við dauðasveitir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert