Finna „fjársjóði“ í rústum skólans

Nizar situr á hækjum sér og rótar í braki þar sem háskólinn í Mosúl stóð eitt sinn. Hann leitar að öllu því sem gæti tengst því akademíska starfi sem áður fór fram í skólanum. Björgunarleiðangurinn um rústirnar er hafinn.

Nizar tilheyrir fjögurra manna teymi sjálfboðaliða sem hefur undanfarna þrjá mánuði unnið að  því að bjarga verðmætum úr rústum háskólans sem skemmdist mikið í átökum íraskra hersveita og vígamanna Ríkis íslams í orrustunni um borgina. Teymið vinnur að því myrkranna á milli að koma skólanum aftur á laggirnar. 

Áður iðaði háskólasvæðið af lífi. Það er í austurhluta borgarinnar sem Íraksher hefur náð aftur á sitt vald. En í átökunum skemmdust byggingarnar mikið því þar komu vígamennirnir upp höfuðstöðvum sínum á meðan valdatíð þeirra stóð í borginni frá því í júní árið 2014.

„Þetta er allt sem er eftir,“ segirNizar og klifrar í gegnum holu á vegg skrifstofubyggingar skólans. 

Nizar gengur ofan á braki háskólabygginganna í leit að gögnum …
Nizar gengur ofan á braki háskólabygginganna í leit að gögnum og öðru heillegu í rústunum. AFP

Íraski herinn hóf áhlaup á Mosúl í október í fyrra. Var markmiðið að ná völdum í borginni frá vígamönnum Ríkis íslams. Mosúl er önnur stærsta borg landsins og var í herkví mánuðum saman. Í janúar tókst hernum að ná yfirráðum í austurhluta hennar og þar stendur háskólabyggingin.

Nizar og félagar hans ganga stofu úr stofu, fara af einni hæð á aðra og snúa við hverjum steini til að leita að gögnum sem tilheyra skólastarfinu og gætu einfaldað enduropnun skólans. 

„Eftir að borgarhlutinn var frelsaður komum við hingað til að skoða skemmdirnar,“ segir Hamdoon, annar sjálfboðaliði úr hópnum. „Tólf byggingar höfðu hrunið til grunna og 5-20% annarra bygginga voru skemmdar, aðallega vegna elds,“ segir hann. „Það voru hér líka ýmsar gildrur sem við fjarlægðum og gerðum svæðið öruggt.“

Fyrir utan sumar byggingarnar eru staflar af brotnum stólum. Búið er að skrifa „örugg“ eða „óörugg“ á veggi nokkurra þeirra. 

„Þessar byggingar eru sögulegar og við eigum okkar sögur úr hverri þeirra. Það var átakanlegt að sjá skemmdirnar en ég held að skólinn muni aftur verða leiðandi í Írak,“ segirHamdoon.

Sjálfboðaliðarnir fjórir segja að sumar byggingarnar hafi gjöreyðilagst. Aðrar eru …
Sjálfboðaliðarnir fjórir segja að sumar byggingarnar hafi gjöreyðilagst. Aðrar eru illa farnar, aðallega vegna elds. AFP

Háskólinn í Mosúl var stofnaður á sjötta áratugnum. Hann var álitinn einn besti háskólinn í landinu. 

„Háskólinn er lífæð Mosúl og nú þarfnast hann stuðnings,“ segir Hamdoon.

 Sjálfboðaliðarnir fjórir, sem allir eru á þrítugsaldri, eiga mikið verk fyrir höndum. Þeir fá ekki mikla aðstoð þar sem byggingarnar standa við Tígris, skammt frá svæði þar sem enn er barist. Því hætta fáir sér á þessar slóðir.

Vígamennirnir sem halda til handan árinnar hafa annað slagið varpað sprengjum og skotið eldflaugum í átt að austurhluta Mosúl.

En Nizar og vinir hans, sem eru allir fyrrverandi starfsmenn háskólans, eru staðráðnir í að halda vinnu sinni áfram. „Þetta er borgin okkar og þetta er háskólinn okkar. Háskólinn reyndist okkur vel,“ segir Nizar. Hann slasaðist sjálfur í árás við upphaf orrustunnar. 

Risavaxið verkefni

Hann viðurkennir að verkefnið sé yfirþyrmandi og að ekki sé mikil árangurs að vænta án stuðnings frá hinu opinbera. Hann vonast til að bráðlega verði hægt að hefja eitthvað skólastarf og byrja að greiða starfsfólkinu laun að nýju.

Hundruð þúsunda íbúa Mosúl hafa flúið undan átökunum í borginni síðustu sex mánuði. Á meðan yfirráðum Ríkis íslams stóð höfðu þúsundir þegar flúið. Margir hafa nú snúið aftur en innviðir borgarinnar eru í molum og þjónusta við íbúa lítil. Það horfir smám saman til betri vegar.

Sjálfboðaliðarnir flokka öll skjöl sem þeir finna. Vígamenn Ríkis íslams …
Sjálfboðaliðarnir flokka öll skjöl sem þeir finna. Vígamenn Ríkis íslams brenndu flest skjalasöfn skólans. AFP

Erlendar stofnanir eru ekki áhugasamar um að hefja uppbyggingu í borginni að nýju á meðan átök standa enn yfir í vesturhluta hennar. 

Á meðan leita Nizar og félagar hans í rústum háskólann að öllu heillegu. Þeir telja að enduropnun háskólans muni glæða samfélagið lífi á ný. Þeir taka hvert skjal sem þeir finna og flokka eftir kúnstarinnar reglum. 

„Vinna þeirra er mjög gagnleg, þeir hafa fundið gögn sem eru eins og fjársjóðir í okkar augum en því miður þá brenndu [vígamenn Ríkis íslams] mörg skjalasöfnin okkar,“ segir maður í stjórn háskólans sem vill ekki láta nafns síns getið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert