„Ekki sekur“

Henri van Breda.
Henri van Breda. AFP

Réttarhöld yfir Henri van Breda, sem er 22 ára, hófust í Höfðaborg í dag. Breda er sakaður um að hafa myrt foreldra sína og bróður auk þess að hafa reynt að myrða systur sína. Hann svaraði kyrrlátlega „ekki sekur“ þegar ákæran var lesin upp. 

Málið hefur vakið athygli langt út fyrir Suður-Afríku en morðin voru framin 27. janúar 2015. Lögreglurannsókn skilaði engum árangri fyrr en Henri van Breda gaf sig fram við lögreglu eftir að lögregla hafði samband við lögmann hans og lét vita að hann væri grunaður um morðin.

Van Breda er ákærður fyrir að hafa drepið bróður sinn, Rudi og foreldra sína Martin og Teresu með exi. Hann er einnig ákærður fyrir morðtilraun en systir hans, Marli, var með alvarlega áverka á höfði og hálsi eftir árásina.

Árásin var gerð á heimili fjölskyldunnar á golfsvæði í Stellenbosch fyrir utan Höfðaborg en þangað höfðu þau flutt eftir að hafa búið í nokkur ár í Ástralíu. Fjölskyldan er sterkefnuð og eru eignir hennar metnar á 16 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 1,8 milljarða króna. 

Í yfirlýsingu sem lögmaður hans, Pieter Botha, las upp við réttarhöldin er haft eftir van Breda að grímuklæddur maður hafi ráðist inn á heimili þeirra vopnaður exi seint um kvöld. Hann hafi séð útlínur mannsins þar sem hann réðst á bróður hans með exi. „Ég æpti á hjálp og reyndi að ná athygli einhverra,“ segir van Breda.  Mjög öflugt öryggiskerfi var á húsinu en ekki hefur verið útskýrt hvernig árásarmanninum óþekkta tókst að komast inn. 

Van Breda segist hafa séð föður sinn koma inn í herbergið og hann hafi reynt að stöðva árásarmanninn. Sá hafi beitt exinni ítrekað. Hann segist minnast þess að hafa heyrt árásarmanninn hlægja. Van Breda segist hafa heyrt rödd móður sinnar en síðan hafi árásarmaðurinn yfirgefið herbergið.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla fannst Rudi, sem var 21 árs verkfræðinemi, liggjandi í blóði sínu við hlið föður þeirra, sem var 54 ára.

Móðir hans, Teresa, 55 ára, fannst látin með höfuðáverka á svölum hjónabergisins. Systirin, Marli, sem var sextán ára þegar árásin var gerð, var í dái eftir árásina og þjáist af minnisleysi. Er ekki fullvíst hvort hún muni bera vitni við réttarhöldin.

Henri van Breda var aftur á móti aðeins með smá árverka og rispur og telja sérfræðingar mögulegt að það séu áverkar sem hann hafi veitt sér sjálfur.

Hann segir í yfirlýsingunni sem var lesin upp í morgun að hann hafi misst meðvitund eftir að hafa afvopnað árásarmanninn sem flúði af vettvangi í kjölfarið. 

„Ég komst aftur til meðvitundar þar sem ég lá í tröppunum. Ég veit ekki hversu lengi ég var meðvitundarlaus... Ég sá að það var bjart og síðan sá ég Marli hreyfa sig. Ég gat einnig heyrt hljóð frá Rudi,“ segir hann. 

Í upptökum af símtali hans til neyðarlínunnar má heyra hann segja að fjölskyldunni blæði og svo heyrist hann flissa. 

Van Breda segist sjálfur að hann hafi verið inni á baði í leik í síma sínum þegar árásarmaðurinn braust inn. Hann segir að fjölskyldan hafi verið ágætlega náin og gert ýmislegt saman.Fyrr um kvöldið hafi þau horft saman á Star Wars mynd. 

Fjölmiðlar í S-Afríku hafa greint frá því að van Breda hafi um tíma dvalið á meðferðarstofnun fyrir fíkla áður en fjölskyldan var drepin. Hann gaf sig fram við lögreglu 18 mánuðum eftir að árásin var gerð og hefur síðan gengið laus gegn tryggingu. Hann var handtekinn ásamt unnustu sinni í haust fyrir vörslu kannabis en þau látin laus án ákæru. 

Frétt Times

Henri van Breda og einn lögmanna hans, Lorinda van Niekerk.
Henri van Breda og einn lögmanna hans, Lorinda van Niekerk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert