Trump minntist ekki á hlýnun jarðar

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið gagnrýndur fyrir að minnast ekki á hlýnun jarðar í yfirlýsingu sinni vegna dags jarðarinnar sem var haldinn í gær.

Þrátt fyrir að deginum, sem var haldinn í 47. sinn, sé ætlað að vekja fólk til umhugsunar um loftslagsbreytingar og þá ógn sem jörðinni stafar af þeim, minntist Trump hvergi á hlýnun jarðar í yfirlýsingu sinni.  

Síðustu forsetar Bandaríkjanna hafa talað um hlýnun jarðar í sams konar yfirlýsingum vegna dags jarðarinnar. George W. Bush, sem er repúblikani eins og Trump, lagði áherslu á mikilvægi þess að takast á við hlýnun jarðar í sinni yfirlýsingu og Barack Obama minntist á hlýnun jarðar fimm sinnum í sinni yfirlýsingu á síðasta ári, samkvæmt frétt Independent.  

Frá vísindagöngu sem var haldin í San Francisco þar sem …
Frá vísindagöngu sem var haldin í San Francisco þar sem stefna Bandaríkjastjórnar í umhverfismálum var gagnrýnd. AFP

Trump reyndi að verja umhverfisáætlanir stjórnar sinnar og sagði í yfirlýsingunni: „Nákvæm vísindi eru nauðsynleg til að ríkisstjórnin geti náð markmiðum sínum í efnahagslegum vexti og verndun umhverfisins.“

Forsetinn undirritaði í síðasta mánuði tilskipun um að afnema lög sem Obama setti um að takast á við hlýnun jarðar.

„Ríkisstjórn mín fylgist með framsæknum vísindarannsóknum sem leiða til betri skilnings á umhverfinu okkar og þeirri hættu sem steðjar að umhverfinu,“ sagði í yfirlýsingu Trump í gær.

Þúsundir vísindamanna og stuðningsmanna þeirra fóru í mótmælagöngur í gær þar sem stefna Bandaríkjastjórnar í umhverfismálum var gagnrýnd. Vildu þeir meina að Trump og hans aðstoðarmenn væru að hafna vísindum með ákvörðunum sínum. 

Hér á landi var einnig haldin vísindaganga og tóku fjölmargir þátt í henni. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert